spot_img
HomeFréttirHreggviður hættur

Hreggviður hættur

Hreggviður Steinar Magnússon er hættur í körfuknattleik en þetta staðfesti fyrrum landsliðsmaðurinn við Karfan.is nú í kvöld. Hreggviður tók þessa ákvörðun í upphafi tímabils þegar miður góðar fregnir bárust frá lækni en meiðsli hafa sett nokkur strik í reikning þessa öfluga leikmanns allt frá árinu 2001.
 
„Þetta byrjaði allt með krossbandaslitum árið 2001 en ég náði mér fyllilega af þeim, kláraði háskólaferil í Bandaríkjunum og lék svo auðvitað hér heima eftir það. Árið 2009 fer ég í liðþófaaðgerð og nú í febrúar fór ég í aðra slíka. Einnig var orðið vart við brjóskskemmdir,“ sagði Hreggviður sem þó var kominn á fullt með ÍR eftir síðustu verslunarmannahelgi.
 
„Undir leiðsögn sjúkraþjálfara og einkaþjálfara var ég að vinna skipulega í mínum málum og byrjaði undirbúningstímabilið með ÍR. Eftir um það bil þrjár vikur með liðinu komu upp ný meiðsli, NCL kalla þeir þetta læknarnir eða meiðsli í innri liðböndum og þetta var bara nokkuð áfall. Sérfræðingur tjáði mér að með þessa meiðslasögu ætti maður von á alvarlegri meiðslum ef maður yrði fyrir hnjaski eins og vill verða í t.d. körfubolta.“
 
Hreggviður er að verða 32 ára gamall og kvað þessi tíðindi ekki alveg þau sem keppnismaður vill heyra: „Ég tók því þessa ákvörðun að hætta og augljóslega var þetta mjög erfið ákvörðun. Það er leiðinlegt að hætta þegar maður getur spilað og það vil ég gera en afleiðingarnar eru bara þess eðlis að maður þarf að hafa framtíðina í huga,“ sagði Hreggviður.
 
„Hvað framtíðin ber í skauti sér skal ég ekki segja, maður á aldrei að segja aldrei en svona er þetta núna,“ sagði Hreggviður aðspurður um hvort skórnir væru endanlega komnir á hilluna. Við slepptum honum þó ekki fyrr en hann hafði rýnt aðeins í möguleika ÍR á komandi tímabili í Domino´s deildinni.
 
„Fyrirfram er þeim kannski ekki spáð efstu sætum eins og kannski hefur komið fram en ég held að þetta lið eigi að geta strítt öllum liðum, náð góðum sigrum og farið í úrslitakeppnina. Ég sé 6. sætið og að stríða þeim mótherjum sem liðið fær í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.“
  
Fréttir
- Auglýsing -