spot_img
HomeFréttirHrannar: Markmiðið að vinna alla leikina í Danmörku

Hrannar: Markmiðið að vinna alla leikina í Danmörku

Keflvíkingurinn Hrannar Hólm er úr leik í Evrópukeppninni með dönsku meistarana í SISU. Liðið skráði sig til þátttöku eftir glæsta leiktíð á síðasta ári en það komst ekkert annað að hjá Hrannari en að fara með liðið í keppni þeirra bestu og þó árangurinn hafi ekki verið ýkja mikill í keppninni þá er hann engu að síður ánægður með þátttökuna. Hrannar hefur þó enn ekki gert upp hug sinn varðandi það að halda áfram með liðið.
,,Ég tók við liðinu í nóvember 2009, þá var það í neðsta sæti í deildinni. Við náðum að blása lífi í liðið og enduðum í öðru sæti í deildinni, en duttum út í undanúrslitum í úrslitakeppninni. Fyrir síðasta tímabil, 2010/11, urðu miklar breytingar á liðinu, fengum nokkra góða leikmenn í hópinn og tókum í kjölfarið dönsku deildina með trompi. urðum bikarmeistarar, deildarmeistarar og síðan danskir meistarar síðast liðið vor, unnum 33 leiki af 34,“ sagði Hrannar sem eftir þann árangur stóð fastur á því að þörf væri á stærri verkefnum.
 
,,Eftir síðasta tímabil ákvað félagið að senda liðið í Evrópukeppni. Ástæðan var sú að við höfðum þörf á nýjum og krefjandi verkefnum ef við ætluðum að bæta okkur, a.m.k. var það mitt mat. Lentum í svakalega erfiðum riðli með algörum topp-liðum frá Rússlandi og Frakklandi og auk þess einu belgísku félagi. Okkar markmið var að læra af þessum góðu liðum og reyna að vinna eins og einn leik. Þetta var í fyrsta sinn í 57 ára sögu SISU sem félagið tekur þátt í Evrópukeppni.
 
Það er óhætt að segja að útkoman var framar vonum. Við töpuðum að vísu stórt í þrígang, tvisvar töpuðum við naumt og svo tókst okkur að vinna Sint Katelina frá Belgíu í síðasta leiknum, 86-65, í besta leik sem liðið hefur leikið undir minni stjórn. Í raun var ég ánægður með alla leikina nema einn. En haustið var því bæði skemmtilegt og erfitt, við lékum 19 leiki á 57 dögum, ferðuðumst mikið og liðið tók miklum framförum. Vissulega kostar þátttakan töluverða peninga en þetta er eina leiðin, að mínu mati, fyrir topp lið frá litlu landi til að taka framförum. Ég hafði upplifað þetta hjá Keflavík fyrir nokkrum árum þegar við fórum í Evrópukeppnina og sú reynsla hafði mikið að segja um ákvörðun okkar,“ sagði Hrannar sem sló þó ekki slöku við heimafyrir í Danmörku þó Evrópa væri að kalla.
 
,,Svo ólíklega vildi til að okkur tókst að vinna alla leikina hér í Danmörku, bæði í deild og bikar, á meðan Evrópukeyrslunni stóð. Í deildinni er liðið ósigrað á toppnum eftir 13 umferðir og á dögunum tókst okkur síðan að vinna bikarmeistaratitilinn, annað árið í röð, með sannfærandi sigri, 65-48, á Høhrsholm, sem er í öðru sæti deildarinnar.
 
Við settum okkur fjögur markmið fyrir leiktíðina, að vinna leik í EuroCup, að verða bikarmeistarar, danmerkurmeistarar og að vinna alla leikina í Danmörku. Síðasta markmiðið er að vísu nokkuð bratt, en maður verður að hafa að einhverju að stefna. Sem stendur höfum við náð tveimur fyrstu markmiðunum og svo sjáum við hvað setur. Við höfum nú unnið alls 29 leiki í röð (18 á þessari leiktíð) og aðalverkefnið næstu mánuðina verður að halda mannskapnum við efnið, forðast meiðslu og halda einbeitingunni. Það er ávallt ákveðin hætta á kæruleysi þegar yfirburðirnir eru þetta miklir,“ sagði Hrannar sem er með sterkan leikmannahóp og m.a. Kiki Lund fyrrum leikmann Haukakvenna.
 
,,Hópurinn er góður, þetta eru allt danskar stúlkur nema að við erum með bandarískan miðherja. Fyrrum Haukaleikmaðurinn Kiki Lund er einn af okkar betri leikmönnum, hún er í svakaformi um þessar mundir og setti m.a. niður sex þrista í bikarúrslitunum. Hún er með 58% nýtingu í 3ja stiga skotum, þrátt fyrir að taka milli 5 og 10 skot í hverjum leik, það er nánast lygilegt. Auk hennar erum við með ansi jafnan hóp, 8 leikmenn sem skipta tímanum á milli sín, auk yngri stúlkna sem eru að stíga sín fyrstu skref. Við spilum hraðan og skipulagðan bolta, leikum mikið af svæðisvörn um allan völlinn og vinnum eftir mjög ákveðnum markmiðum, bæði í vörn og sókn. Leikmennir vita hvað þeir eru að gera, amk. lítur það þannig út,“ sagði Hrannar hógvær og er mjög sáttur með þátttökuna í Evrópukeppninni.
 
,,Evrópukeppnin var rosaleg reynsla fyrir stúlkurnar, að leika á móti topp atvinnumannaliðum fyrir framan 2-3 þúsund áhorfendur er eitthvað sem þú upplifir ekki í Danmörku. Þetta var eins og að stíga inn í annan heim, þar sem allt gerist á öðrum hraða og af meiri krafti. Leikmennirnir þurfa að vera klárir allan tímann, annars fer illa. En þeir átta sig á því hægt og rólega að þeir geta sjálfir miklu meira en þeir héldu. Það er skemmtilegt og sérlega hvetjandi.
 
Þetta hefur verið skemmtilegur tími og verður það vonandi áfram fram á vor. Ég hef hins vegar ekki ákveðið hvort ég verði áfram með liðið, það kemur í ljós í vor.“
 
 
   
Fréttir
- Auglýsing -