„Við erum búin að gera það sem aldrei áður hefur verið gert í Danmörku, vinna tvöfalt fjögur ár í röð og þá er ágætis tími til að snúa sér að öðrum verkefnum,“ sagði Hrannar Hólm. Hrannar sem starfar hjá danska körfuknattleikssambandinu hefur stýrt kvennaliði SISU í Danmörku með gríðarlegum árangri og nú er kominn nýr kafli í sögubækurnar í dönsku kvennakörfunni merktur tíma Hrannars. SISU vann tvöfalt síðastliðin fjögur ár en fyrr í vikunni urðu þær danskir meistarar.
Við inntum Hrannar eftir því hvað önnur verkefni fælu í sér:
„Vinna í forgjöfinni að sjálfsögðu,“ sagði Hrannar og það er ekkert grín en það eru kannski færri sem vita það að Hrannar er sterkur golfari og hefur m.a. tekið þátt á Íslandsmótunum hér heima. „Einnig að stýra dönsku landsliðunum í sumar en ég hef ekki ákveðið neitt með þjálfun, ég hef gaman af því að þjálfa og held örugglega áfram við tækifæri.“



