spot_img
HomeFréttirHrafn: Þetta snýst um spennustjórnun

Hrafn: Þetta snýst um spennustjórnun

15:00
{mosimage}

(Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs)
 

Þór Akureyri tekur nú þátt í úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan árið 2000 en þá duttu þeir út gegn Haukum og fór einvígið 1-2 Hauka í vil. Nú mæta Þórsarar í Toyotahöllina í Keflavík kl. 19:15 í kvöld og mæta Deildarmeisturunum sem unnu báðar deildarviðureignir liðanna þetta árið. Keflavík og Þór mættust síðast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar árið 1995 og vann Keflavík einvígið 2-0. Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs segir að ef sínir menn berjist og séu þokkalegir í hausnum eigi Þórsarar að geta veitt öllum liðum góða samkeppni.

 

,,Þetta átti allt að vera samkvæmt plani og við ætluðum að tryggja okkur inn í úrslitakeppnina gegn Tindastól á heimavelli en okkur tóks eftirminnilega að klúðra því þannig að við urðum að draga eitthvað sérstakt upp úr hattinum þessar síðustu tvær umferðir í deildinni,” sagði Hrafn í samtali við Karfan.is.

 

Þórsarar komu inn í úrslitakeppnina á síðustu metrunum þar sem þeir áttu þann eina kostinn vænstan að vinna Snæfell á Akureyri. Tap hefði þýtt að annaðhvort Stjarnan eða Tindastóll hefði komist í úrslitakeppnina en Þórsarar skelltu bikarmeisturunum og náðu settu marki fyrir tímabilið, sæti í úrslitakeppninni.

 

,,Í síðustu umferðum höfum við reynt að losa okkur við þann hugsunarhátt að við þurfum að gera eitthvað sérstakt til að vinna þessi lið. Ef við ætlum okkur á annað borð að vera í úrslitakeppninni verðum við bara að trúa því að við séum búnir að ná þeim styrkleika með þann hóp sem við höfum núna til þess að láta til okkar taka,” sagði Hrafn. ,,Ef við berjumst og erum þokkalegir í hausnum þá eigum við að geta veitt öllum liðum góða samkeppni,” sagði Hrafn sem telur að Þór raðist ágætlega upp gegn deildarmeisturum Keflavíkur.

 

,,Keflvíkingar eru óskamótherjar okkar eins og hvert annað lið og eftir að við fengum okkar Englending í hópinn tel ég okkur raðast ágætlega á móti Keflavík. Þetta snýst um spennustjórnun og að stjórna hraða leiksins. Það er reyndar ekki það auðveldasta gegn Keflavík en ef okkur tekst það þá tel ég okkur í eins góðum málum á móti Keflavík og hverju öðru liði í deildinni,” sagði Hrafn sem kom með Þórsara upp úr 1. deild inn í úrvalsdeild og er nú kominn með þá í úrslitakeppnina.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -