10:16
{mosimage}
(Hrafn Kristjánsson)
Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs á Akureyri segir í viðtali við www.thorsport.is að nauðsynlegt hafi verið fyrir liðið að bæta hinum breska miðherja, Robert Reed, við leikmannahópinn enda hafi Akureyringar ekki viljað vera eftir eins og hans kemst að orði. Of mikið hafi verið lagt í deildina þetta árið. Reed er þriðji erlendi leikmaður Þórsara en fyrir eru Cedric Isom og Luka Marolt.
Við látum hér fylgja viðtalið við Hrafn á heimasíðu Þórs þar sem m.a. kemur fram óánægja þjálfarans með launaþakið og þróun mála í úrvalsdeild.
Af hverju að taka þetta skref núna? (Að bæta Reed í hópinn)
,,Það má segja að þetta hafi verið okkur mjög þung skref að fara þessa leið. Ætlun okkar var að spila þetta tímabil á þessum tveimur mönnum og láta þar við sitja. Umhverfi okkar í Iceland Express deildinni er því miður þannig að það var eiginlega bara málið að hrökkva eða stökkva þegar líða fór að lokun félagaskiptagluggans. Að okkar mati vorum við einfaldlega búnir að setja of mikið erfiði í þetta dæmi hjá okkur til að sitja eftir. Nú er bara að sjá hvort ákvörðunin er sú rétta og ég stend og fell í orðins fyllstu merkingu með henni.”
Hvað finnst þér um þær reglur sem gilda um erlenda leikmenn í IE deildinni?
,,Að mínu viti eru þær reglur sem nú eru í gildi að missa marks og íþróttinni ekki til framdráttar. Maður er að sjá nokkur lið sem maður hefur hingað til talið eiga frábært unglingastarf taka sér þrjá útlendinga og þrjú þeirra liða sem við eigum í hvað mestri samkeppni við hafa þá fjóra. Maður sér mikið af ungum og efnilegum strákum, sem líða fyrir þetta og sumir standa því miður nánast í sömu sporum og þeir gerðu fyrir ca. tveimur árum.”
Hvaða breytingar myndir þú vilja sjá í efstu deild?
,,Það fyrirkomulag sem leikið er eftir í Noregi hugnast mér vel og myndi maður þá vilja sjá þær þannig að þrír íslenskir leikmenn væru inni á vellinum hverju sinni. Auðvitað er hægt að benda á einstaka lið og leikmenn á landinu sem myndu lenda í vandræðum til að byrja með við þessar breytingar en nú finnst mér vera kominn tími til að líta einna helst á hag heildarinnar í þessu dæmi. Auk þess væri ekki loku fyrir það skotið fyrir þau lið sem ekki hafa breiðan leikmannahóp að hafa þrjá erlenda leikmenn með þessu fyrirkomulagi. Mér skilst að hægt sé að taka fyrir tillögur að reglubreytingum á formannafundi í mars og þar ætlum við Þórsarar að kasta þessari tillögu fram auk þess sem við leggjum til að þetta blessaða launaþak verði rifið af og hent út í hafsauga.
Sjálfsagt á maður eftir að fá einhverjar yfirhalningar núna frá einhverjum vina minna í hreyfingunni en við verðum allir að virða skoðanir hvors annars í þessu og ræða hlutina ofan í kjölinn.
En hvað segir Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs hvernig leggst svo leikurinn gegn Stjörnunni í hann?
Þetta leggst vel í mig. Allir mínir leikmenn eru klárir í þetta verkefni eins og önnur. En við erum minnugir þess hvernig fór síðast þegar við mættum þeim fyrr í vetur. Þar voru allt of margir leikmenn sem ekki fundu sig í því verkefni sem þeirra beið. Og staðan er einfaldlega sú að við hreinlega skuldum Stjörnunni það að við mætum þeim af fullum krafti þannig að úr verði hörkuleikur.
Þá verður gaman að vita hvaða hinn nýi leikmaður hefur á leik okkar manna sagði Hrafn að lokum.



