,,Þetta var alvöru leikur og gaman að geta boðið áhorfendum upp á þetta en ég var eiginlega hundfúll því mér fannst við ekki halda leikplaninu okkar í mikið meira en 12-13 mínútur. Þetta gekk vel hjá okkur í byrjun og við vorum grimmir,“ sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari KR sem kominn er í undanúrslit Poweradebikarsins eftir rafmagnaðan sigur á Snæfell í kvöld.
Þið fenguð ansi myndarlegt framlag frá Joshua Brown í kvöld:
,,Já enda er þetta leikmaður með risavaxið hjarta og hefur unnið hörðum höndum fyrir öllu sem hann á. Stundum verða svo menn að setja bara boltaskrín þegar aðrir eru í ham eins og Brown í kvöld. Mér fannnst við einnig fá fullt af færum á móti svæðinu inni í teig og við reyndum mjög einbeitt að sækja fimmtu villuna á stóru mennina þeirra tvo og það leit svolítið klaufalega út þegar við vorum að þessu en Snæfell spilaði bara góða vörn og við brenndum af skotunum og vorum orðnir full fyrirsjáanlegir á köflum,“ sagði Hrafn sem verður í næsta drætti í bikarskálinni góðu með KFÍ, Tindastól og Keflavík.
,,Mér finnst örlagadísirnar vera með KFÍ,“ sagði Hrafn og við spurðum þá um hæl, ertu þá á leið vestur? ,,Nei þá eru þær ekki með KFÍ á bandi,“ sagði Hrafn sposkur. ,,Ég hef þannig tilfinningu að við séum að fara að sjá annað áhorfendamet í Laugardalshöll, KFÍ setji annað met í Laugardalshöll með því að komast í bikarúrslit en þeir settu það fyrst þegar þeir spiluðu til úrslita gegn Grindavík. KFÍ mun fá eitthvað lið í bikarnum heim sem er ekki KR og ég spila við þá í Höllinni.“