Allt virtist jafnvel stefna í fyrsta sigur Hattar í deildinni þegar Stjörnumenn mættu í heimsókn á Egilsstaði í kvöld. En lokakafli þeirra var afleitur með öllu og Stjörnumenn lönduðu sigri að lokum 64:79.
Tobin Carberry byrjaði strax vel fyrir Hött og var með 10 af fyrstu 12 stigum heimamanna. Hann átti góðan fyrri hálfleik og var með 20 stig í leikhléi en kom svo ekki nema 6 stigum niður í þeim seinni og virkaði mjög þreyttur í 4. leikhluta enda spilaði hann allar mínútur sem í boði voru án hvíldar. Hann tók auk þess 12 fráköst í leiknum.
Enginn annar náði yfir 10 stig hjá Hetti og enduðu þeir með arfaslaka 33% skotnýtingu utan af velli þó þeir hafi litið vel út á köflum. Næsti maður hjá heimamönnum var Mirko Virijevic með 9 stig og 11 fráköst en hann var að skila 23% skotnýtingu.
Hjá Stjörnunni var Justin Shouse að hitta vel og endaði með 24 stig, auk þess sem Al'onzo Coleman skoraði 18 stig og tók 12 fráköst.
Eftir 1. leikhluta var Stjarnan komin með þægilega forystu 15-23 og allt leit út fyrir að þeir ættu auðvelt kvöld framundan þegar þeir bættu við 4 stigum í byrjun 2. leikhluta til að koma sér í 15-27 en þá vöknuðu Hattarmenn og fóru að berjast. Höttur var fljótlega kominn með 6 menn á blað í stigaskori og var að fá framlag frá nokkrum, ásamt góðri vörn, sem skilaði því að þeir komust á 25-8 run fram að hálfleik. Staðan var þá orðin 40-35 í hálfleik heimamönnum í vil.
3. leikhluti var nokkuð jafn framan af og skiptust liðin á að skora körfur og áhorfendur orðnir spenntir í stúkunni enda langeygir eftir sigri þar til Stjörnumenn fóru að rífa sig í gang þegar rúmlega 3 mínútur voru eftir af fjórðungnum í stöðunni 51-42 fyrir Hött, en þá fór að hitna í mönnum undir körfunni sem endaði með tæknivillu á Ágúst Angantýsson leikmann Stjörnunnar. Eftir þetta virtist leikurinn færast yfir til Stjörnunnar sem náðu að minnka muninn í 56-50 við lok 3. leikhluta. Hattarmenn virtust líka stressast upp þegar þeir fundu fyrir þrýstingnum frá Stjörnumönnum og voru að gera of mikið af mistökum á mikilvægum tímapunkti.
Í 4. leikhluta skoraði Höttur ekki fyrr en Stjarnan var komin yfir 56-58 og nokkuð ljóst í hvað stefndi því lykilmenn Hattar virtust alveg búnir á því og voru skrefinu á eftir í öllu sem gerðist það sem eftir lifði leiks. Spennan sem var í byrjun leikhlutans dó fljótlega út og Stjarnan endaði með því að vinna hann 8-29 sem skilaði þeim 15 stiga sigri 64-79.
Texti: Guðmundur Rúnar