spot_img
HomeFréttirHöttur sótti tvö stig í Smárann

Höttur sótti tvö stig í Smárann

Höttur lagði Breiðablik í Smáranum í kvöld í 13. umferð Subway deildar karla, 78-86. Eftir leikinn er Höttur um miðja deild með sjö sigra og sex töp á meðan að Breiðablik er í 11. sætinu með tvo sigra eftir fyrstu þrettán umferðirnar.

Gangur leiks

Þetta byrjar vel hjá Hattarmönnum og þeir fara gífurlega hratt af stað á upphafsmínutunum, fóru 0-15 á fyrstu 5 mínutum af fyrsta leikhluta. Heimamenn fara hins vegar illa af stað, en fyrsti leikhluti endaði 12-22 fyrir gestunum. Hattarmenn halda forystunni í öðrum leikhlutanum, en gestirnir voru sterkir og eru í rauninni alltaf skrefinu á undan. Þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik standa stigin 27-49, Hattarmönnum í vil.

Stigahæstur heimamanna í hálfleik var Everage Richardson með 12 stig á meðan Matej Karlovic var kominn með 11 stig fyrir Hött.

Hattarmenn halda sterkir áfram og eru með góð tök á leiknum í upphafi seinni hálfleiks. Blikar halda áfram og reyna að ná þeim, en það gengur ekki vel því Hattarmenn eru bara einfaldlega mun sterkari og ákveðnari og með því halda gestirnir forystunni áfram og þriðji leikhluti endar í 41-68. Gestirnir héldu ákveðninni og hörkunni áfram í fjórða og síðasta leikhluta en Blikar reyndu sitt allra besta að ná þeim. Blikar náðu mest 7 stiga muni á milli liða, en í lok leiks stóðu stigin gestum í vil 78-86.

Atkvæðamestir

Í liði Breiðabliks var Everage Richardson atkvæðamestur með 27 stig, 12 fráköst og 1 stoðsendingu. Fyrir Hött var það Matej Karlovic með 18 stig, 7 fráköst og 1 stoðsendingu.

 Hvað svo?

Bæði lið eiga leika næst komandi fimmtudag 18. janúar, en þá fær Höttur lið Njarðvíkur í heimsókn í MVA höllina, en Breiðablik mætir Álftanes á Álftanesinu.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtal / Kristófer Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -