spot_img
HomeFréttirHöttur sigraði í framlengingu

Höttur sigraði í framlengingu

Hattarmenn gerðu góða ferð norður á Akureyri þar sem þeir lönduðu sigri á heimamönnum í Þór með 80 stigum gegn 70 í framlengdum leik. Staðan var 65-65 þegar venjulegum leiktíma lauk.
Gestirnir tóku frumkvæðið strax í fyrsta leikhluta. Þeir léku góða vörn, spiluðu skipulagðan sóknarleik og náðu þannig fljótlega 10 stiga forskoti en staðan í lok fyrsta leikhluta var 18-26.

 

Í öðrum leikhluta náðu heimamenn vopnum sínum og þéttu varnarleikinn verulega. Fóru þeir að saxa jafnt og þétt á forskot Hattar og réði þar mestu mun betri vítanýting Þórsara, en Hattarmenn áttu í stökustu vandræðum með vítaskotin, hittu aðeins úr 20 af 48 vítaskotum. Enginn lenti þó í eins miklum þrengingum og Ágúst Dearborn leikstjórnandi Hattar, sem var með 31% nýtingu, fór 29 sinnum á línuna og setti niður 9 skot. Skelfileg nýting en honum til hróss verður að segja að hann gafst ekki upp, hélt áfram að sækja villur og náði að bæta nýtinguna verulega þegar leið á leikinn. Staðan í hálfleik var 36-39 og ljóst að leikurinn gat farið hvernig sem var.

 
Í þriðja leikhluta fór að verða vart taugatitrings hjá gestunum og fór að bera á því að einstaklingar, ekki síst áður nefndur Ágúst, ætluðu að klára leikinn á eigin spýtur. Bandarískur leikmaður Hattar Kevin Jolley, fékk síðan fjórðu villu sína þegar á hann var dæmd ásetningsvilla þegar hann steypti sér á eftir lausum bolta. Svolítið skrýtinn dómur að mati undirritaðs og ekki sá eini hjá dómurum leiksins sem voru helst til flautuglaðir og fengu bæði lið að kenna nokkuð á því. Þegar þarna var komið við sögu virtist því farið að fjara undan leik Hattar en þeir héldu forystunni enn í lok leikhlutans 52-57.
 
Í upphafi fjórða leikhluta virtust heimamenn ætla að ná tökum á leiknum. Kristinn Harðarson leikmaður Hattar sem hafði átt mjög góðan leik virtist sofna um stund, tapaði tveimur boltum í röð og gerði tvívegis slæm mistök í vörninni sem gáfu Þórsurum körfu. Þessu næst fékk Kevin Jolley sína 5. villu þegar hann fékk dæmdan á sig ruðning, Þórsarar jöfnuðu í fyrsta skipti síðan í fyrsta leikhluta með þriggja stiga körfu frá sínum Bjarka Oddssyni 61-61 og áhorfendur tóku vel við sér. Þarna tók við skrýtinn kafli þar sem báðum liðum virtist fyrirmunað að skora í hátt í 4 mínútur. Það var loks Björgvin Karl Gunnarsson leikmaður Hattar sem náði að brjóta ísinn með þriggja stiga körfu en Björgvin Jóhannsson fann fjölina sína sömuleiðis og jafnaði. Hvort lið náði að setja niður 1 vítaskot til undir mikilli pressu og staðan í lok venjulegs leiktíma 65-65 en Hattarmenn voru nærri því að tryggja sér sigur eftir 25 sekúndna lokasókn, en skot Emils Atla Ellegaard geigaði.
 
Í framlengingunni er skemmst frá því að segja að Hattarmenn tóku öll völd. Heimamenn lentu í verulegum villuvandræðum og áður en yfir lauk höfðu fimm leikmenn þeirra þurft að yfirgefa völlinn með 5 villur, þar á meðal Bjarki Oddsson, einn þeirra besti maður og Bandaríkjamaðurinn Wesley Hsu, sem reyndar var langt frá því að sýna sitt besta í þessum leik. Höttur náði því að landa sínum öðrum sigri í deildinni en lokatölur urðu 70-80.
 
Í liði heimamanna bar mest á Keflvíkingnum Elvari Sigurjónssyni sem skoraði 17 stig og tók 11 fráköst og Bjarka Oddssyni sem lauk leik með 16 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Að auki vill undirritaður geta sérstaklega hins 17 ára og bráðefnilega Sindra Davíðssonar en þar er á ferð eldfljótur leikmaður sem ég reikna með að við munum sjá meira af á næstunni.
 
Í liði gestanna var Kevin Jolley atkvæðamestur með 23 stig og 12 fráköst á 27 mínútum. Ágúst Dearborn var með 15 stig og 8 fráköst, en hefði hæglega getað skorað mun meira með mannsæmandi vítanýtingu. Björgvin Karl Gunnarsson skoraði 10 stig og hirti 6 fráköst og Kristinn Harðarson var með 9 stig og 7 fráköst.
 

Stefán Bogi Sveinsson – www.hottur.is

Fréttir
- Auglýsing -