spot_img
HomeFréttirHöttur í úrslit eftir æsispennandi leik

Höttur í úrslit eftir æsispennandi leik

Hér að neðan fer umfjöllun úr viðureign Hattar og Þórs sem fram fór í gærkvöldi. Af óviðráðanlegum orsökum gátum við ekki birt þessa umfjöllun fyrr en nú: 
 
Höttur gerði sér lítið fyrir og sigraði Þór Ak. öðru sinni á Egilsstöðum í gær. Þetta var annar leikur liðanna en Höttur vann fyrsta leikinn á Akureyri sl. sunnudag. Lið Þórs leiddi megnið af leiknum og það var ekki fyrr en í blálokin sem Höttur komst yfir og eftir æsispennandi lokasekúndur var það Höttur sem stóð uppi sem sigurvegari rimmunnar og mætir Fjölni í úrslitarimmu 1. deildar.
 
Þór Akureyri lék án Sveinbjörns Skúlasonar sem meiddist í fyrsta leiknum gegn Hetti og munaði um minna en Þórsarar léku á fáum mönnum í leiknum. Framan af leik kom það ekki að sök þar sem Sveinn Blöndal steig upp og átti mjög góðan leik í vörn og sókn. Fyrsti leikhluti fór fremur rólega af stað og var Höttur ívið sterkari framan af leikhlutanum en þegar á leið komust Þórsarar betur inn í leikinn og sigu fram úr í lok leikhlutans og héldu þeirri forystu megnið af leiknum.
 
Í seinni hálfleik fóru villur liðanna að spila inn í og munaði miklu fyrir Þór að þurfa að taka Svein Blöndal út af með 4 villur í 3. leikhluta, enda hafði hann verið lykilmaður í sóknarleik Þórsara og var það hrein unun að fylgjast með honum sýna gamalkunna takta. Útlitið varð ekki gott fyrir Hött í stöðunni 55-63 fyrir Þór eftir að Gerald Robinson fékk mikið högg á andlitið og stóran skurð við augabrún og ekki útlit fyrir að hann yrði meira með. Benedikt Guðgeirsson Hjarðar kom þá inn fyrir Gerald og leysti miðvarðarstöðuna mjög vel. Þór hélt forystu í leikhlutanum en Höttur var aldrei langt undan.
 
Í fjórða leikhluta virtust Hattarmenn ívið grimmari en þeim gekk illa að ná Þórsurum að stigum. Það var ekki fyrr en Gerald snéri aftur inn í salinn, við mikinn fögnuð stuðningsmanna Hattar og gerði sig líklegan fyrir innáskiptingu, sem vendipunktur varð í leik Hattar. Ekki bar á öðru en að höggið sem Gerald varð fyrir hefði hrist upp í honum og kom hann mjög grimmur og staðráðinn til leiks. Höttur saxaði á forskot gestanna en það varð þó ekki fyrr en þegar rétt um tvær mínútur voru til leiksloka að Höttur komst yfir 77- 75. Þór jafnaði metin strax í næstu sókn en Gerald, sem var allt í öllu á lokamínútunum, tróð boltanum eftir mikilvægt sóknarfrákast Hreins Gunnars í liði Hattar. Staðan 79-77 þegar Þór hélt af stað í sókn og um ein mínúta eftir. Ólafur Aron keyrði þá upp að körfunni fyrir Þór og uppskar villu á Gerald og fékk tvö vítaskot. Ólafur skoraði úr fyrra skotinu en það seinna geigaði og Gerald náði frákastinu. Á þeim tímapunkti mátti heyra stuðningsmenn liðanna naga neglurnar af spennu. Þegar um 25 sekúndur voru eftir gerði Gerald sig líklegan til að komast í ákjósanlega stöðu í teignum með boltann þegar Jarrell Clayton sá við honum og stal boltanum á gríðarlega mikilvægum tímapunkti og Þórsarar keyrðu af stað í síðustu sóknina. Þar mættu þeir þéttri vörn heimamanna sem fengu dæmdan fót á sig þegar um sex sekúndur voru eftir og Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórsara, tók leikhlé. Þórsarar lögðu upp skrín fyrir Ólaf Aron sem keyrði inn miðjuna þar sem hann mætti Gerald fyrir sem varði skot Ólafs og leiktíminn var úti. Þórsarar urðu æfir í lokin en þeir vildu fá villu á Gerald og töldu hann hafa hoppað „inn í“ Ólaf. Sitt sýndist hverjum og um vafatilvik að ræða á hvorn veginn sem dæmt hefði verið en niðurstaðan lá fyrir og Höttur komst í úrslitin eftir eins stigs sigur, 79- 78 og mætir Fjölni í úrslitum um sæti í Úrvalsdeild en Fjölnismenn unnu í kvöld oddaleikinn í undanúrslitum gegn Breiðablik, 82-77.
 
 
Hjá Hetti reyndist Gerald afar öflugur þegar á reyndi, sérstaklega á lokamínútum leiksins. Austin Magnús Bracey var stigahæstur í liði Hattar með 24 stig en Gerald skoraði 18 stig og tók 17 fráköst. Hreinn Gunnar Birgisson átti fína spretti í leiknum skoraði 10 stig og tók 6 fráköst. Benedikt Guðgeirsson Hjarðar spilaði mjög vel þær tæpu fimmtán mínútur sem hann spilaði, sérstaklega á þeim kafla sem hann leysti Gerald af hólmi.
 
Hjá Þór skoraði Jarrell Clayton 27 stig og tók 15 fráköst. Sveinn Blöndal var duglegur í leiknum og sýndi hvers hann er megnugur með mikilli útsjónarsemi, fallegum sendingum og mikilli baráttu. Hann skoraði 18 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Elías Kristjánsson átti einnig fínan leik en hann skoraði 15 stig fyrir Þór.
 
 
Umfjöllun og mynd/ Ragnar Sigurðsson
 
 
Fréttir
- Auglýsing -