spot_img
HomeFréttirHöttur fallið úr efstu deild - Keflavík unnið 12 leiki í röð

Höttur fallið úr efstu deild – Keflavík unnið 12 leiki í röð

Lokaumferð Dominos deildar karla fór fram í kvöld og kom þá í ljós hvar liðin enduðu í töflunni. Mikil spenna var á flestum vígstöðum. Á Egilsstöðum réri Höttur algjöran lífróður þar sem liðið þurfti á sigri að halda á sama tíma og Njarðvík þurfti að tapa og ÍR að vinna. Ef verkefnið var ekki nógu ærið fyrir voru andstæðingar Hattar í kvöld deildarmeistarar Keflavíkur sem höfðu fyrir leikinn tapað tveimur leikjum í allan vetur og unnið 11 leiki í röð.

Gangur leiksins:

Ljóst var í upphafi að Höttur ætlaði að selja sig dýrt og voru öflugir í upphafi. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 15-14 fyrir Hetti. Snemma í öðrum leikhluta lenda Dino Stipcic og Deane Williams í samstuði sem endar með því að Dino yfirgefur völlinn og spilaði ekki meir í kvöld. Höttur var með yfirhöndina lungan úr leikhlutanum en Keflavík lauk fyrri hálfleiknum á fullum krafti og minnkuðu muninn í eitt stig 30-29 fyrir hálfleik.

Gæði Keflavíkur skinu í gegn í þriðja leikhluta er liðið seig hægt og rólega framúr. Gestirnir voru komnir tíu stigum yfir og staðan orðin svört fyrir Hött. Höttur gerði sitt besta að reyna að komast aftur inní leikinn en Keflavík stóð öll áhlaup af sér og sigldu sigrinum heim nokkuð sannfærandi að lokum 62-74.

Atkvæðamestir:

Deane Williama var frábær líkt og alltaf og var með 19 stig og 16 fráköst. Hörður Axel var einnig öflugur með 19 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar og þá var Dominikas Milka með 19 stig einnig og 13 fráköst.

Eysteinn Bjarni Ævarsson var bestur heimamanna með 16 stig og 10 fráköst. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 12 stig, 8 fráköst og 5 stolna bolta. Micheal Mallaroy sem hefur verið lykilmaður liðsins valdi sér ekki réttan leik til þess að hitta illa en hann endaði með 10 stig.

Hvað næst?

Sigur Keflavíkur var dauðakoss Hattar sem fellur niður í 1. deild á ný. Þetta er í þriðja sinn á sex árum sem Höttur fer beint niður eftir að hafa tryggt sér sæti í efstu deild. Óhætt er að segja að þetta Hattarlið hafi það verið það öflugasta sem hefur fallið úr efstu deild. Liðið fellur með 14 stig en þetta er í fjórða sinn í sögunni sem lið fellur með svo mikinn stigafjölda og er það það mesta sem lið hefur fallið með. Ellefta sætið er besti árangur Hattar í sögunni og það er ansi auðvelt að hafa samúð með örlögum liðsins.

Keflavík hefur unnið 12! leiki í röð í Dominos deildinni og verið óárennilegir síðustu mánuði. Liðið mætir nú Skagfirðingum í átta liða úrslitum Dominos deildar karla.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -