Þetta kemur kunnuglega fyrir sjónir, gott ef þeir eru nú ekki bara keimlíkir bræðurnir bæði í útliti og svona hvernig þeir bera sig að inni á vellinum. Maður skilur vel ef áhorfendur telja að sjálfur Hörður Axel Vilhjálmsson sé mættur aftur í úrvalsdeildina en svo er nú víst ekki.
Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson yngri bróðir Harðar er mættur á parketið með meistaraflokki Fjölnis og þó Hjalti þjálfari liðsins sé eldri bróðir þeirra beggja (Harðar og Hreiðars) þá eru þeir tveir yngri nánast eins og snýttir út úr sömu nösinni. Hvort Hreiðar nái jafnt langt og Hörður bróðir sinn er algerlega undir honum komið en eins og maðurinn sagði: „Djöfull eru þeir líkir.“