spot_img
HomeFréttirHorton ekki með KR í kvöld: Sprunga í rifbeini

Horton ekki með KR í kvöld: Sprunga í rifbeini

 
Bandaríski bakvörðurinn Edward Lee Horton verður ekki með KR í kvöld þegar Íslands- og bikarmeistararnir mæta Snæfell í Stykkishólmi. Karfan.is ræddi við Hrafn Kristjánsson þjálfara liðsins fyrir stundu og staðfesti hann þessi tíðindi. Mikil blóðtaka fyrir KR þar sem Horton splæsti í sterka frammistöðu gegn Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð.
,,Hann spilar ekki í kvöld, þetta gæti verið smá sprunga í rifbeini en hann er of meiddur til að spila í kvöld. Maður verður bara að sjá langtímaverðmætið í þessu og hvíla hann þennan leikinn. Martin Hermannsson er einnig meiddur en hann fékk högg á bakið í fyrsta leik og var mun verri á föstudeginum. Martin fer með okkur vestur en hann byrjar væntanlega ekki leikinn en vonum samt að hann sé orðinn algóður.
 
Aðspurður um leik kvöldsins gegn Hólmurum á þeirra sterka heimavelli sagði Hrafn:
,,Við förum spenntir í Hólminn og ætlum okkur að ná öllu sem er í boði úr þessum leik, það er alltaf gaman að spila í Hólminum og þessi vandræði, meiðslin, má bara líta á sem áhugaverða áskorun fyrir okkur, þannig nálgumst við verkefnið.“
 
Mynd/ [email protected] – Horton í fyrstu umferð gegn Þór Þorlákshöfn
Fréttir
- Auglýsing -