Í kvöld fer fram einn leikur í Domino´s deild karla þegar Þór Þorlákshöfn tekur á móti Njarðvík í Icelandic Glacial Höllinni í Þorlákshöfn. Liðin eru jöfn að stigum, hafa bæði unnið þrjá leiki og tapað einum. Bæði lið eiga það sammerkt að hafa tapað sínum fyrstu stigum á tímabilinu gegn Keflavík.
Leikurinn hefst kl. 19:15 í Þorlákshöfn. Nú hafa flest lið leikið fimm leiki í deildinni en Grindavík, Njarðvík, Snæfell og Þór hafa leikið fjóra leiki.
Liðin hafa fjórum sinnum mæst í deildarkeppninni í Þorlákshöfn og hefur Njarðvík unnið þrjá leiki og Þór aðeins einn. Njarðvík vann síðasta deildarleik liðanna í Þorlákshöfn 82-84 á síðasta tímabili en á þar síðasta tímabili vann Þór Njarðvík í fyrsta sinn í Þorlákshöfn með 84-66 sigri.
Þá er einn leikur í 1. deild karla í dag þegar Augnablik tekur á móti Vængjum Júpíters kl. 18:30 í Kórnum.
Þór Þorlákshöfn – Njarðvík
19:15 í Icelandic Glacial Höllinni
Fjölmennum á völlinn!
Mynd/ [email protected] – Tómas Heiðar Tómasson sækir að Keflavíkurvörninni í síðasta leik Þórsara.



