spot_img
HomeFréttirHörkusigur Stjörnunnar á lokamínútunum

Hörkusigur Stjörnunnar á lokamínútunum

 
Risaslagur Snæfells og Stjörnunar í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar hófst með látum í Sykkishólmi. Stjarnan mætti hikstandi í upphafi en fór með sigur af hólmi á spennandi lokamínútum þar sem Snæfell fór illa að ráði sínu. Snæfell hafði komist í 16-1 í upphafi leiks. Stjarnan leiðir því 1-0 í einvíginu eftir 75-73 sigur og fer með það í farteskinu í næsta leik í Garðabænum á þriðjudaginn.
Byrjunarlið leiksins.
Snæfell: Zeljko Bojovic, Jón Ólafur “Nonni Mæju” Jónsson, Pálmi Freyr Sigurgeirsson, Ryan Amoroso, Sean Burton.
Stjarnan: Justin Shouse, Jovan Zdravevski, Renato Lindmets, Daníel Guðnundsson. Fannar Freyr Helgason.
 
Snæfell byrjaði af krafti og voru komnir í 10-1 þegar Stjarnan tók leikhlé og vörn Snæfells að stoppa allt í þeirra sóknarleik. Nonni Mæju og Sean Burton höfðu opnað með þristum og Zeljko Bojovic með troðslu. Ekki blés byrlega Stjörnumegin í upphafi en Snæfell komst svo í 16-1 á fyrstu fimm mínútum leiksins með þristum frá Sean og Zeljko. Snæfell var yfir 27-15 eftir fyrsta hluta og eitthvað farið að hressast Stjörnumegin.
 
Leikar voru að jafnast og Stjarnan aðeins að ná tökum á sínum leik. Ryan Amoroso mátti vara sig kominn með 3 villur í upphafi annars hluta og settur á tréverkið. Stjarnan náði að snúa þessu upp í flottan leik með 12-0 kafla þegar þeir voru undir 34-21 og söxuðu á í eitt stig 34-33. Snæfellingar hittu ekki neitt og voru að spila eins og þeir spila verst á meðan Stjarnan setti allt niður. Snæfell náði að hanga yfir 40-38 en Jovan Zdravevski náði ótrúlegu spjaldið ofaní þegar flautan gall.
 
Í hálfleik í liði Snæfells var Sean Burton kominn með 12 stig og Zeljko Bojovic 8 stig. Nonni Mæju og Pálmi Freyr voru komnir með 7 stig hvor. Hjá Stjörnunni var Jovan Zdravevksi kominn með 9 stig, Renato Lindmets 7 stig og 6 fráköst.
 
Allt var galopið í alla enda þegar liðin voru farin að skiptast á að skora en staðan var jöfn 40-40 og Fannar Freyr sem hafði verið Stjörnunni mikilvægur var kominn með 4 villur. Stjörnumenn komust hinsvegar í langþráða forystu 45-54 og voru miklu ferskari í sínum aðgerðum. Stjarnan leiddi eftir þriðja hluta 54-58 en Snæfell náði aðeins að þrýsta sér nær.
 
Snfæell náði að jafna 58-58 og fóru strax í 61-58 og síðasti leikhlutinn byrjaði af krafti með Ryan Amoroso sjóðheitan. En ekki gaf það Snæfelli sérstakan kraft til að spretta eitthvað frá Stjörnunni. Leikurinn varð harður líkamlega þó oft gæfu dómarar það ekki til kynna en Snæfell hélt naumri forystu þegar fór á líða leikhlutann 65-60 en voru þó búnir að eiga 11-2 í hlutanum.
 
Renato Lindmets fékk sína fimmtu villu þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og var það dýrt fyrir Stjörnumenn. Það var hörkuleikur í lokin þegar að Pálmi kom Snæfelli í 72-67 en Justin Shouse þekkir hverja fjöl í Stykkishólmi og setti niður tvær þriggja stiga körfur og kom Stjörnunni í 72-73 þegar 18 sekúndur voru eftir. Stjarnan fékk svo víti þegar 12 sekúndur voru eftir og kom Jovan leiknum í 72-75. Zeljko Bojovic fékk tvo víti undir lokin setti fyrra niður en það seinna geigaði og Ryan Amoroso náði ekki að setja niður eftir frákastið og Stjarnan sigaraði í fyrsta leiknum 73-75 og leiða mikilvægt 1-0 fyrir heimaleikinn sinn sem verður á þriðjudaginn n.k.
 
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson.
 
Helsta tölfræði leikmanna.
 
Snæfell: Ryan Amoroso 19/13 fráköst/3 stoðsendingar. Sean Burton 18/5 fráköst/5 stoðsendingar/4 bolta náð. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 12/3 fráköst/3 stoðsendingar. Zeljko Bojovic 9/6 fráköst/4 stoðsendingar. Jón Ólafur Jónsson 7/9 fráköst. Sveinn Arnar Daviðsson 6 stig. Emil Þór Jóhannsson 2 stig. Atli Rafn Hreinsson 0. Hlynur Hreinsson 0. Egill Egilsson 0. Kristján Andrésson 0. Daníel Kazmi 0.
 
Stjarnan: Jovan Zdravevski 20/9 fráköst/4 stoðsendingar. Justin Shouse 19/5 fráköst/4 stoðsendingar. Renato Lindmets 13/12 fráköst/4 stoðsendingar/4 bolta náð. Fannar Freyr Helgason 8/5 fráköst. Daníel Guðmundsson 6 stig. Marvin Valdimarsson 5 stig. Ólafur Ingvarsson 2 stig. Guðjón Lárusson 2 stig. Kjartan Atli Kjartansson 0.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -