spot_img
HomeFréttirHörkubarátta í Síkinu!

Hörkubarátta í Síkinu!

Á meðan lið Skagafjarðar lagði Akureyri í Útsvari í kvöld náði Tindastóll 1-0 forystu í rimmu sinni við Þór Þorlákshöfn í úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfuknattleik. Heimamenn komu mjög ákveðnir til leiks og náðu undirtökunum í leiknum í fyrsta fjórðung. Baráttan í vörninni var frábær og menn voru að hitta ágætlega og þetta saman skilaði heimamönnum 10 stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta 26-16.
 
Þórsarar voru þó ekki komnir í Síkið til að vera einhver fótaþurrka fyrir Tindastól. Þeir komu gríðarlega grimmir til leiks í 2. leikhluta og þegar hann var rúmlega hálfnaður komust þeir yfir með þrist frá Tómasi Heiðari 28-29. Emil Karel bætti við körfu og 15-2 kafli gestanna staðreynd og það fór um menn í Síkinu. Heimamenn náðu þó vopnum sínum og komust 7 stigum yfir um tíma en undir lok hálfleiksins gáfu þeir eftir og frábær flautuþristur Darrin Govens þýddi að gestirnir voru aðeins einu stigi undir í hálfleik 45-44. Það var töluvert stress í gangi, bæði hjá leikmönnum og dómurum enda tilefnið ærið.
 
Þriðji leikhluti hófst með þrista sýningu og var þeim jafnt skipt, hvort lið með 2 þrista. Það sem eftir lifði leikhlutans var óttalegt hnoð hjá báðum liðum en heimamenn voru þó alltaf sjónarmun á undan og leiddu með 5 stigum fyrir lokafjórðung 67-62.
 
Í fjórða leikhluta var það Pétur Rúnar Birgisson sem steig upp fyrir heimamenn og átti stærstan þátt í að klára leikinn með 15 stig í leikhlutanum og þar af 3 þrista, hvern öðrum glæsilegri. Pétur skoraði 8 fyrstu stigin í fjórðungnum og kom Tindastól í 13 stiga forystu og það var bil sem gestirnir náðu ekki að brúa. Þeir reyndu þó svo sannarlega og börðust allt fram á síðustu mínútu en heimamenn héldu haus og lönduðu mikilvægum heimasigri 97-85. 
 
Helgi Rafn Viggósson leiddi sína menn allan leikinn og sýndi gríðarlegt baráttuþrek í sókn og vörn. Dempsey var einnig gríðarsterkur með 26 stig og 16 fráköst. Það var þó Pétur Rúnar sem stal senunni með framlagi sínu í fjórða leikhluta og verður því að teljast lykilmaður í sigri heimamanna í kvöld. Darrin Govens bar af hjá gestunum og Tómas átti lipra spretti en það var ekki nóg að þessu sinni.
 
Kári Marísson sagði í viðtali við karfan.is eftir leikinn að þessi barningur hafi ekki komið honum á óvart. Þórsarar væru ólíkindatól, sérstaklega sóknarlega og hafi alltaf reynst Tindastól verulega erfiðir. Þetta yrði erfið rimma en hann treysti sínum mönnum til að klára dæmið enda ættu þeir mikið inni.
 
Lykilmaður leiksins: Pétur Rúnar Birgisson, Tindastól
 
Mynd: Myron Dempsey blokkar Grétar Inga í drasl
  
 
Mynd og umfjöllun/ Hjalti Árnason
Fréttir
- Auglýsing -