CB Valladolid og Real Madrid mætast í ACB deildinni á Spáni í kvöld og þá fær Hörður Axel Vilhjálmsson sína eldskírn. Í sumarlok samdi Hörður við CB Valladolid en þar á undan hafði hann fengið sig lausan frá MBC í þýsku úrvalsdeildinni.
Það er því óhætt að segja að leiktíðin hefjist með stæl hjá CB Valladolid sem þykja ekki fyrirfram líklegir til stórræða á gríðarsterkum heimavelli Madrídinga. Hjá Madríd er valinn maður í hverju rúmi og nægir þar að nefna m.a. Rudy Fernández, Felipe Reyes, Nikola Mirotic, Jaycee Carroll og Sergiuo Llull svona rétt aðeins til að varpa mynd á eitt allra sterkasta lið Evrópuboltans.



