15:48
{mosimage}
(Hörður Axel Vilhjálmsson)
Hörður Axel Vilhjálmsson mun nú í annað sinn reyna fyrir sér í atvinnumennsku en hann skrifaði nýverið undir samning við spænska liðið Melilla. Karfan.is náði stuttu tali af Herði sem segir að það verði mikil áskorun að standa sig vel ytra? Hörður lék með Njarðvíkingum á síðustu leiktíð en samdi svo í sumar við Keflvíkinga og snöggtum síðar kom spænska liðið Melilla og vildi leikmanninn í sínar raðir.
Hvernig kom þetta til með Melilla, varstu búinn að vera í einhverju sambandi við klúbbinn?
Þetta með Melilla gerðist mjög hratt, endaði með því að ég skrifaði undir nóttina áður en við fórum með landsliðinu til Litháen.
Þú hefur áður farið til Spánar, kannski ekki með þeim árangri sem þú sjálfur óskaðist eftir, hvernig blasir þetta verkefni við þér núna?
Nei, það vill náttúrulega aldrei neinn yfirgefa lið sem hann hefur samið við eins og ég gerði, en það leit úr fyrir að vera það besta í stöðunni á þeim tíma. Þetta fer annars mjög vel í mig og það er mikil áskorun fyrir mig að standa mig þarna.
Ertu betur í stakk búinn til þess að halda í atvinnumennskuna núna en síðast?
Ég er náttúrulega tveimur árum eldri núna en ég var þá. Þótt að tímabilið í vetur hafi kannski ekki verið eins og maður hafi óskast til og maður spilaði kannski ekki eins vel og maður hefði viljað, þá held ég að ég hafi þroskast rosalega mikið á þessu. Svo lítur þetta líka allt öðruvísi út núna en áður, þar sem kærasta mín fer með mér og ég mun lifa allt öðruvísi en ég gerði á Kanarí. Þetta kemur bara allt í ljós, vonandi að þetta gangi betur en seinast.