spot_img
HomeFréttirHörður með 12 í stórsigri Nymburk

Hörður með 12 í stórsigri Nymburk

Hörður Axel Vilhjálmsson var með 12 stig í stórsigri Nymburk á botnliði VTB deildarinnar, Vita Tbilisi, þegar liðin mættust í gærkvöld. Leikurinn endaði 59-119 og sáu liðsmenn Vita Tbilisi aldrei til sólar.

Hörður lék 15 mínútur í þessum leik en fyrir utan stigin 12 var hann með eitt frákast og þrjár stoðsendingar.

Nymburk situr í fjórða sæti deildarinnar á eftir rússnensku liðunum CSKA, Unics og Zenit en liðið hefur sigrað átta leiki og tapað fjórum. Var þetta annar leikurinn sem Nymburk sigrar í röð eftir að koma úr þriggja leikja taphrinu.

Hörður og félagar fá ekki mikla hvíld en á miðvikudaginn mætir liðið Ventspils frá Lettlandi í FIBA Europe Cup í annarri umferð keppninnar. Upp úr fyrstu umferð fara 32 lið áfram sem skiptast í átta fjögra liða riðla. Nymburk spilar í P-riðli ásamt PO Antwerp Giants (BEL), BK Ventspils (LAT) og Lukoil Academic Sofia (BUL).

Hörður er ekki eini Íslendingurinn sem komst áfram í aðra umferð en Jakob Sigurðarson og félagar í sænska liðinu Boras spila í Q-riðli ásamt Basketclub Telenet Oostende (BEL), Türk Telekom Ankara (TUR) og Wks Slask Wroclaw (POL). Boras hefur einnig leik á miðvikudaginn þegar liðið mætir Telenet Oostend. 

Fréttir
- Auglýsing -