spot_img
HomeFréttirHörður Helgi: Sá sigurinn í höfn allan tímann

Hörður Helgi: Sá sigurinn í höfn allan tímann

,,Það var orðið tímabært að sjá Fjósið fullt, þetta var hrikalega flott stemmning og svona á þetta að vera," sagði Hörður Helgi Hreiðarsson leikmaður Skallagríms við Karfan.is en Borgnesingar leiða 1-0 í úrslitaeinvígi 1. deildar þar sem þeir mæta Skagamönnum. Liðin áttust við í Borgarnesi í gær og lokatölur 91-82 fyrir Skallagrím.
 
,,Það var einn maður sem stóð upp úr hjá Skaganum í leiknum og það var Lorenzo McClelland, hann stóð sig mjög vel. Fljótur bakkari og sókndjarfur og sneggri en maður bjóst við og við bara höfðum ekki nægilega miklar áhyggjur af honum fyrir leikinn," sagði Hörður en Lorenzo setti 35 stig á Skallagrím í gær.
 
Hörður var ekki í búning sökum meiðsla þegar Skallagrímur og ÍA mættust að Jaðarsbökkum í deildinni. ,,Það virtist vera ágætt pláss þarna í húsinu þeirra á Jaðarsbökkum svo það verður bara góð stemmning að fara þangað enda verkefni sem þarf að vinna," sagði Hörður en fullt var í Fjósinu í gærkvöldi og verður fróðlegt að sjá hvort væsa muni um áhorfendur annað kvöld að Jaðarsbökkum sem eru nokkuð þrengri um sig en Fjósið.
 
Mikið í gegnum Flake
 
,,Það gerðist allt í kringum Darrell Flake í þessum fyrsta leik í gær, það fór mikið í gegnum hann, ÍA féll mikið á hann og þá opnaðist margt og Flake var duglegur að finna okkur hina fyrir vikið. Fyrir mér var þetta í raun ekkert voðalega ,,close" leikur, ég sá sigurinn í höfn allan tímann," sagði Hörður vígreifur en hvað leggja Borgnesingar áherslu á fyrir næsta leik?
 
,,Sama og í gærkvöldi í raun, stoppa Watson og McClelland. ÍA er með grunnan bekk á meðan við erum að spila á tólf mönnum og Skaginn notar sína tvo sterkustu í fullar 40 mínútur og við leiðum 1-0 vegna dýptar liðsins okkar."
 
Lungann af leiktíðinni var Hörður að glíma við meiðsli, hvernig stendur hann núna?
 
,,Ég er í toppformi núna eftir þessi hnémeiðsli og tók vel á því eftir að hnéð var að stríða mér en allur annar liðþófinn var fjarlægður," sagði Hörður svo við spurðum strax á móti – ertu þá klár í úrvalsdeildina?
 
,,Já þú veist það! Ég er búinn að bíða lengi eftir henni. Ég hlakkaði mikið til að spila í henni með Val en það gekk ekki eftir svo maður gerir þetta bara með réttu liði, það er bara þannig."
 
Mynd/ Sigga Leifs: Hörður Helgi sækir að ÍA vörninni í gær.
 
Fréttir
- Auglýsing -