spot_img
HomeFréttirHörður bakaði bikarmeistarana(Umfjöllun)

Hörður bakaði bikarmeistarana(Umfjöllun)

22:14

{mosimage}

 

 

(Hörður Axel átti stórleik í Njarðvíkurliðinu í kvöld) 

 

 

Njarðvíkingar eru komnir á topp Iceland Express deildar karla í körfuknattleik eftir góðan 83-68 sigur á bikarmeisturum ÍR. Leikurinn var annar tveggja lokaleikja þriðju umferðar í deildinni. Njarðvík og Keflavík sitja nú jöfn á toppi deildarinnar, bæði ósigruð eftir þrjár umferðir og mætast liðin í grannarimmu á sunnudag sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Hörður Axel Vilhjálmsson átti mestan þátt í að skapa Njarðvíkursigurinn í kvöld er hann einn síns liðs skaut ÍR-inga í kaf um miðbik loka leikhlutans. Frá þessu er greint á www.vf.is

 

 

Kuldinn í Ljónagryfjunni var álíka og sá er nú kallar fram sultardropa utandyra. Bæði Njarðvík og ÍR voru á hælunum í upphafi leiks og var staðan 6-6 þegar þrjár mínútur voru eftir af upphafsleikhlutanum. Liðin rönkuðu þó lítið eitt við sér og staðan var 13-12 Njarðvík í vil að loknum drepleiðinlegum upphafsleikhluta.

 

Liðin tóku við sér í öðrum leikhluta en bæði voru þau áfram óvarkár á boltann en Njarðvíkingar töpuðu 22 boltum í leiknum í kvöld gegn 14 hjá ÍR. Steinar Arason átti fína innkomu hjá ÍR í leikhlutanum en það voru Njarðvíkingar sem leiddu í hálfleik 37-30. Þeir Steinar Arason, Ómar Sævarsson og Sonny Troutman voru allir með sex stig í hálfleik í liði ÍR og þá var Hreggviður Magnússon kominn með þrjár villur. Egill Jónasson var stigahæstur heimamanna í leikhléi með 9 stig.

 

 

{mosimage}

(Ómar barðist vel fyrir ÍR)

 

Fyrri hálfleikurinn olli miklum vonbrigðum en liðin fóru þó að finna taktinn í síðari hálfleik. Gestirnir úr Breiðholti minnkuðu muninn í 43-40 með þristum frá Hreggviði Magnússyni og Steinari Arasyni og fyrir vikið tóku Njarðvíkingar leikhlé. Teitur Örlygsson gaf þeim ærlegt orð í heyra og hans menn bættu við sig snúning og gerðu 12 stig gegn tveimur frá ÍR á skömmum tíma og staðan orðin 55-42 Njarðvík í vil. Gestirnir náðu að klóra í bakkann með þriggja stiga körfu frá Sveinbirni Claessen og staðan orðin 58-53 þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta. Þetta voru fyrstu stig Sveinbjarnar í leiknum og ef ÍR á að ganga vel verður hann að eiga mun betri kvöld en hann átti í Ljónagryfjunni þetta skiptið.

 

Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 61-53 Njarðvík í vil en ÍR voru enn inni í leiknum. Þegar fjórði leikhluti hófst benti allt til þess að um spennandi lokasprett yrði að ræða, þangað til Hörður Axel Vilhjálmsson brá á leik. Þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka setti Hörður niður þrjár þriggja stiga körfur og kveikti gjörsamlega í Njarðvíkingum sem sigldu lygnan sjó að sigrinum.

 

 

{mosimage}

(Brenton gerði 16 stig og tók 10 fráköst í kvöld)

 

Lokatölur leiksins voru 83-68 þar sem Hörður Axel var vafalítið maður leiksins og steig upp á mikilvægri stundu í Njarðvíkurliðnu. Ómar Sævarsson var sá eini sem virtist með lífsmarki hjá ÍR en hann gerði 16 stig og tók 18 fráköst ásamt því að gefa 5 stoðsendingar og verja 3 skot.  

 

Njarðvíkingar eru því á toppi deildarinnar með Keflvíkingum og er þegar komin mikil spenna í Reykjanesbæ fyrir rimmu liðanna á sunnudag. Ljóst má þó vera að Njarðvíkingar þurfa að leika betur á sunnudag en þeir gerðu í kvöld því í raun áttu þeir bara 5-7 góðar mínútur í kvöld. Grænir voru að fá mikið af opnum skotum en þeir hittu aðeins úr 4 af 13 þriggja stiga skotum sínum og 17 af 25 vítum. Þeir mega prísa sig sæla yfir því að hafa hitt á slæman dag hjá ÍR.

 

Bandaríkjamennirnir Charleston Long, UMFN, og Sonny Troutman, ÍR, ættu báðir að athuga hvort ekki sé farið að hitna undir þeirra sætum í liðum sínum því hvorugur þeirra hefur enn sýnt sitt rétta andlit og spurning hvort þjálfararnir Teitur Örlygsson og Jón Arnar Ingvarsson hafi þolinmæði fyrir fleiri slakar frammistöður af þeirra hálfu.

 

Tölfræði leiksins

 

www.vf.is

 

 

{mosimage}

 

(Friðrik gerði 13 stig og tók 6 fráköst)

Fréttir
- Auglýsing -