Hörður Axel Vilhjálmsson er nýr aðalþjálfari Keflavíkur í Subway deild kvenna samkvæmt heimildum Körfunnar. Þá mun hann einnig leika áfram með karlaliði félagsins.
Hörður Axel er að sjálfsögðu fyrirliði liðsins í Subway deild karla, en hann hefur einnig verið aðstoðarþjálfari Jóns Halldórs Eðvaldssonar í Subway deild kvenna síðastliðin tvö tímabil.
Keflavík hafnaði í 5. sæti Subway deildar kvenna á síðasta tímabili og var því í annað skipti í sögu félagsins fyrir utan úrslitakeppni deildarinnar.
Sem leikmaður hefur Hörður leikið með Keflavík frá árinu 2009, en þá hefur hann einnig leikið fyrir átta félög fyrir utan landsteina Íslands á þeim tíma, sem og verið fyrirliði íslenska landsliðsins á síðustu árum.