spot_img
HomeFréttirHörður á heimleið og leikur með Keflavík í vetur

Hörður á heimleið og leikur með Keflavík í vetur

21:25
{mosimage}

(Hörður Axel Vilhjálmsson)

Hörður Axel Vilhjálmsson mun leika með Keflavík í Iceland Express deild karla í vetur en þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við Karfan.is. Herði var nokkuð niðri fyrir þegar Karfan.is náði tali af honum en forsvarsmenn Melina á Spáni hafa sagt Herði upp samningi sínum við liðið og því er bakvörðurinn væntanlegur heim.

,,Ég var búinn að semja til tveggja ára við Melina en þeir ráku mig og sögðu að ég væri ekki klár fyrir þessa deild. Fyrra árið átti að vera þannig að ég æfði og ferðaðist með liðinu og á seinna árinu myndi ég spila,“ sagði Hörður og er vitanlega mjög ósáttur við niðurstöðuna.

Hörður segir Melina fara á bak orða sinna en skömmu áður en honum var sagt upp hafði þjálfari liðsins sýnt honum skilning á því að Hörður þyrfti tíma til að aðlagast aðstæðum. ,,Þjálfarinn sagði að það myndi taka mig tíma að venjast þessu hérna og að það lægi ekki á neinu hjá honum en viku síðar kallar hann mig inn á skrifstofu og rekur mig bara. Það er einfaldlega búið að stinga mann ágætlega í bakið hérna,“ sagði Hörður sem þarf í þriðja sinn að sætta sig við höfnun utan landsteinanna.

Hefur þú nokkuð gefið upp draumana um atvinnumennsku erlendis?
,,Ég tek næsta tímabil með Keflavík og met svo stöðuna síðar. Ég er ekki búinn að vera sá heppnasti í þessu í gegnum tíðina,“ svaraði Hörður sem m.a. bjó við nöturlegar aðstæður þegar hann reyndi fyrir sér hjá Grand Canaria á Kanaríeyjum.

Vissulega ergjandi fyrir Hörð sem m.a. tók ekki þátt í landsleikjum Íslands þar sem hann hugði á að vinna sig upp í röðum Melina. Keflvíkingar verða því bakverðinum ríkari á næstu leiktíð sem er handan við hornið og er Hörður því væntanlegur til landsins næstu daga.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -