spot_img
HomeFréttirHollráð Sævars

Hollráð Sævars

Af einskærri góðmennsku hefur Sævar Sævarsson varaformaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur ákveðið að skunda fram ritvöllinn og liðsinna Sveinibirni Claessen leikmanni ÍR í undirbúningi sínum fyrir leiki. Hófust þessar innilegu bréfaskriftir í aðdraganda viðureignar ÍR og Keflavíkur b í Poweradebikarkeppninni. Nokkuð ljóst þykir að Sævar hafi sagt of mikið í bréfunum því ÍR komst jú í Höllina…
 
 
Hollráð Sævars síðustu mánuði til handa Sveinibirni. Við tókum þessar skriftir Sævars af Fésbókarsíðu hans án leyfis en þetta efsta bréf er skrifað í dag til handa Sveinibirni í undirbúningi sínum fyrir viðureign ÍR og Stjörnunnar í kvöld:
 
17. febrúar 2014
Sveinbjörn Claessen, elsku vinur. Góðráðin koma heldur seint í þetta skiptið en eins og maðurinn sagði “seint kemur sumt en kemur þó” (vandamál sem þú hefur nú aldrei þurft að glíma við) Það er heldur betur stórleikur í kvöld þegar þið ÍR-ingar takið á móti nágrönnum ykkar úr Garðabæ. Það er aðeins einn hlutur sem mig langar að ráðleggja þér fyrir þennan leik. Það er að þó bæði lið séu í bláum og hvítum búningum þarftu ekki að fara á taugum. Körfuknattleikssamband Íslands hefur séð til þess að þegar slíkt kemur upp mun heimaliðið, ÍR, leika í ljósum lit á meðan gestaliðið, Stjarnan, leikur í dökkum lit. Þannig muntu þekkja liðsfélaga þína í sundur frá mótherjanum. Þetta virðist ekki hafa verið skýrt í þínum huga fram að þessu því skv. tölfræði KKÍ ertu nánast jafn líklegur til að gefa boltann á samherja og mótherja. Á þessu mun klárlega verða breyting í kjölfar þessara góðráða og ástæðulaust að fara í fleiri leiki í vetur óviss um hverjir séu þínir samherjar. Þú getur þar að leiðandi sent knöttinn á alla þá leikmenn sem klæðast HVÍTUM treyjum í kvöld en mundu, og þetta er ekki síður mikilvægt, að þeir þurfa að vera inni á vellinum…
Baráttukveðja,
SævarS
 
14. febrúar 2014
Sveinbjörn Claessen, ég verð að biðja þig og aðra ÍR-inga innilegrar afsökunar á að hafa gleymt að færa þér góð ráð fyrir leik gærdagsins. Það þurfti auðvitað ekki að spyrja að leikslokum vegna þessa og er ég harmi sleginn yfir þessum mistökum mínum. Ég mun passa mig á að þetta gerist ekki aftur. Ekki væri vitlaust ef þú hefðir samband með tveggja daga fyrirvara fyrir næsta leik…
 
6. febrúar 2014
Jæja, Sveinbjörn Claessen, á morgun mætið þið ÍR-ingar neðsta liði Domino´s deildarinnar á glæsilegum heimavelli þeirra að Hlíðarenda þar sem vanalega er kjaftfullt út að dyrum af óðum áhorfendum. Líkt og ég lofaði þér á dögunum mun ég gefa þér fleiri góð ráð þar sem þau hafa heldur betur komið þér og liði þínu til góða. Þema dagsins eru V-in þrjú; “vanmat”, “virðing” og “vatn” í tilefni þess að leikið er gegn Val. Þó ljóst sé að Valur sé fallið um deild mátt þú undir engum kringumstæðum mæta í þennan leik þannig að þú vitir þá þegar úrslit leiksins – þó þú og aðrir auðvitað vitið þau. Haltu strákunum við efnið með að þykjast áhyggjufullur og stressaður í aðdraganda leiksins og þá eru meiri líkur á því að þeir mæti tilbúnir en ekki værukærir. Þá verður þú líka að fara vera hógværari í leikjum, sérstaklega þegar leikið er gegn lakari andstæðingum. Þannig þýðir ekki að vera sífellt að hnykkla vöðvana, berja þér á brjóst og vera með hið almenna yfirlæti og hroka sem þú átt það til að sýna andstæðingnum. Berðu virðingu fyrir mótherjanum, sama hver hann er! Nú að lokum er mikilvægt að innbyrða mikið vatn því þannig kemur þú í veg fyrir vökvatap. Þó ber að varast að drekka of mikið, sér í lagi standandi á haus, því þá gætir þú endað með vatnshöfuð – sem er ekki gott.
Gangi þér vel á morgun minn kæri!
 
30. janúar 2014
Jæja, Sveinbjörn Claessen. Þau ráð sem ég gaf þér í aðdraganda leiks ÍR og Keflavíkur b í bikarnum hafa sannarlega hjálpað þér og liðið þínu. Ekki nóg með að þau náðu að koma í veg fyrir stórleik af minni hálfu í sjálfum leiknum heldur hafa þau veitt þér og þínum innblástur í þeim leikjum sem komið hafa í kjölfarið og tryggt ykkur sigur í þeim báðum. Í ljósi þessa hef ég ákveðið að halda áfram að gefa þér góð ráð fyrir hvern leik fram að úrslitakeppni. Vildi bara láta þig vita… og já já ég veit auðvitað að þetta er allt mér að þakka svo það er algjör óþarfi að vera að senda mér einhver lofbréf…
 
21. janúar 2014
Sveinbjörn Claessen, nú er stundin að renna upp og því miður verð ég að tilkynna þér að eftirfarandi ráð verður það síðasta fyrir leik kvöldsins. Við höfum farið yfir það hvernig þú berð að fara að við að reyna stöðva mig skora og einnig hvernig þú getur reynt að hindra mig frá fráköstum. Nú förum við yfir sóknarleik þinn en það er auðvitað á vitorði allra sem hafa leikið körfubolta á Íslandi að ég er ekki síðri varnarmaður en sóknarmaður. Það gerir hinn mikli sprengikraftur, stökkkraftur, hraði og hinn mikli líkamlegi styrkur sem ég bý yfir auk óstjórnlegrar ósérhlífni. Nú auðvitað muntu ekki skora mikið í kvöld ef ég fæ að dekka þig, serm er líklegt þar sem þú ert jú besti leikmaður ÍR, og því tel ég farsælast að þú einbeitir þér að því að hjálpa félögunum. Gefðu góð skrín og reyndu að vera sem minnst námunda við boltann því líklegra er en ekki að ég neyðist til að stela honum af þér ella… Gangi þér annars allt í haginn í kvöld elsku vinur!
 
20. janúar 2014
Sveinbjörn Claessen, afskaðu hvað þetta kemur seint en ég hef verið upptekinn við að undirbúa þorrablót. En hvað varðar ráð þessarar viku þá lýtur það að fráköstum. Eins og þú þekkir tek ég flest mín fráköst þegar knötturinn er á efsta punkti (oftar en ekki í námunda við efsta hluta spjalds). Og þar sem ég er leiftursnöggur mun þér verða erfitt um vik að stíga mig út með hefðbundnum hætti, þ.e. með bakið að mér. Ég ráðlegg þér því að láta liðsfélaga þína sjá um að frákasta en þú skalt einbeita þér að halda mér frá teignum með því að “facefronta” mig þegar þú stígur út. Það verður erfitt og mun hamla þér í sóknarleiknum sökum þess hve þreyttur þú verður en það er eina leiðin til að þið sigrið frákastabaráttu þessa leiks… Mátt eiga von á tveimur ráðum til viðbótar þar til leikurinn hefst!
 
4. desember 2013
Sveinbjörn Claessen, getur þú frætt mig um það hvernig þú ætlar að stoppa mig í kringum 20. janúar? Þar sem ég veit að svarið verður; “það er ekki hægt” – ætla ég að einu sinni í viku fram að leik að gefa þér ráð hvernig þú getur a.m.k. litið ágætlega út við að reyna …
Ráð þessarar viku: Ekki gefa mér vinstri eða hægri leiðina upp að körfu þar sem ég er jafnvígur á báðar og með einkar mikinn sprengikraft. Vertu því fyrir framan mig, c.a. 1,5 meter, og reyndu eftir fremsta megni að láta eins og þú lendir í hindrun þegar ég fer af stað. Þegar það gerist er gott að blóta liðsfélögum þínum svo áhorfendur heyri en við það beinist athygli þeirra að þeim fremur en þínum vanmætti…
 
  
Mynd/ [email protected] – Sævar Sævarsson með Keflavík b í bikarleiknum gegn ÍR
Fréttir
- Auglýsing -