spot_img
HomeFréttirHöllin bíður Garðbæinga eftir sigur í Fjósinu

Höllin bíður Garðbæinga eftir sigur í Fjósinu

Garðbæingar eru komnir í bikarúrslit karla í þriðja sinn á sex árum. Stjarnan lagði Skallagrím í undanúrslitum Poweradebikarsins í Fjósinu í kvöld, lokatölur 97-102 þar sem Stjörnumenn voru ávallt feti framar. Justin Shouse fann sig vel með 31 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar en þeir Tracy Smith og Sigtryggur Arnar voru atkvæðamestir í liði Skallagríms með saman 55 af 97 stigum liðsins í kvöld. Bitur niðurstaða fyrir heimamenn í Borgarnesi sem voru á höttunum eftir sínum fyrstu bikarúrslitum í sögu félagsins.
 
 
Sigtryggur Arnar og Justin Shouse léku lausum hala í upphafi leiks, gestirnir úr Garðabæ voru að hitta feikivel og komust í 7-15 þegar Sigtryggur herti róðurinn og færði Borgnesinga nærri, staðan 20-25 Stjörnuna í vil eftir fyrsta leikhluta. Varnarræður hjá þjálfurum beggja liða fyrir annan leikhluta og ræðurnar náðu eyrum leikmanna fram að miðjum öðrum leikhluta.
 
Nafnarnir Dagur Kár og Dagur Sturlu fengu báðir sínar þriðju villur hjá Garðbæingum í öðrum hluta, slóðaskapur í varnarleik heimamanna gerði það engu að síður að verkum að þeir komsut ekki jafnfætis Stjörnumönnum. Borgnesingar áttu þó lokaorðið í fyrri hálfleik þegar Daði Berg náði sóknarfrákasti og setti niður stökkskot um leið og tíminn rann út og minnkaði muninn í 44-49 fyrir háflleik.
 
Sigtryggur Arnar var með 10 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar í hálfleik hjá Skallagrím og Tracy Smith með 13 stig. Hjá Stjörnunni var Justin með 15 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar og bræðurnir Dagur Kár og Daði Lár báðir með 8 stig.
 
Martraðarbyrjun Skallagríms var vitaskuld draumabyrjun Stjörnunnar í þriðja leikhluta, SIgtryggur Arnar fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu í liði Skallagríms og fékk þar með sína fjórðu villu og hélt á tréverkið. Gestirnir juku muninn þá skjótt úr fimm stigum upp í 11 stig, 44-56. Heimamenn voru þó ekki af baki dottnir og um miðbik leikhlutans kom Sigtryggur aftur inn á völlinn. Hans fyrsta verk var að blása krafti í sína menn, skora körfu og fá vítaskot að auki. Annan leikhlutann í röð voru liðin jöfn, 27-27 í fjörugum þriðja hluta þar sem Tracy Smith hafði tekið við sér en Borgnesingar enn í basli með þá Dag Kár og Justin. Staðan 71-76 fyrir fjórða leikhluta.
 
Á fyrstu mínútu fjórða leikhluta var flautuð tæknivilla á varamannabekk Skallagríms, fjarri því rétti tíminn til að vera með tuð af bekknum. Í ofanálag hafði Magnús Þór Gunnarsson á 30 mínútum ekkert skorað fyrir Skallana og munar um minna en kappinn var ekki að finna skotið sitt í kvöld.
 
Dagur Kár Jónsson splæsti í sjö stiga rispu fyrir Stjörnuna og kom Garðbæingum í 80-90 þegar fimm mínútur lifðu leiks. Davíð Ásgeirsson minnkaði muninn með þrist fyrir Skallana, 85-92. Svona gekk þetta, lítill herslumunur sem ávallt vantaði hjá Skallagrím, smá heppni á köflum jafnvel. Heimamenn voru líka að gera afdrifarík mistök á ögurstundum sem heimiluðu Stjörnunni að vera við stýrið.
 
Villusúpa varð úr þegar þeir Dagur Kár Jónsson og Magnús Þór Gunnarsson fóru í hár saman. Vaskleg framganga Dags og tilburðir Magnúsar voru þar ávíttir og þá fékk Ágúst Angantýsson einnig tæknivíti og varð að yfirgefa völlinn með sína fimmtu villu. Þarna var nokkuð fjaðrafok og úr varð að Skallagrímur fékk enn eitt tækifærið til að brjóta sér leið upp að hlið Stjörnunnar. Magnús fékk tvö víti, það síðara vildi bara niður og staðan orðin 90-95 og 18-26 vítanýting Borgnesinga að bíta þá í rassgatið. Skallagrímur missti boltann í næstu sókn eftir innkast að loknum vítaskotum Magnúsar og Atkinson skoraði á hinum enda vallarins 90-97 og þar með var þetta komið, eltingaleiknum lauk svo í stöðunni 97-102 og Stjarnan fer í Höllina þessa vertíðina.
 
Litlu hlutirnir skiptu máli í kvöld, Stjarnan gerði þá einfaldlega betur og þó liðin hafi verið með nokkuð ásættanlega tölu í töpuðum boltum þá voru þeir töpuðu úr ranni Borgnesinga nokkrir hverjir rándýrir.
 
Sigtryggur Arnar var besti maður Skallagríms í kvöld með 26 stig og 6 stoðsendingar. Borgnesingar voru einfaldlega í vandræðum þegar hann var ekki á parketinu. Tracy Smith var helst til of lengi í gang og þá sérstaklega í frákastabaráttunni en hann lauk samt leik með 29 stig og 9 fráköst. Það var Borgnesingum dýrt að hafa Magnús Þór kaldan með aðeins 3 stig í kvöld. Páll Axel var aftur á móti með 18 stig og þar af 5-9 í þristum.
 
Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 31 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar og Dagur Kár Jónsson átti nokkrar frábærar rispur með 24 stig og 2 stoðsendingar. Jeremy Martez Atkinson lauk svo leik með 16 stig og 9 fráköst.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -