Haukar unnu stóran og sterkan sigur á Snæfell í toppslag Domino´s-deildar kvenna í gærkvöldi. Nokkur eftirvænting var fyrir toppslagnum eins og gefur að skilja og einnig fyrir þær sakir að nokkuð umrót hafði orðið í herbúðum Hauka fyrir leikinn stóra. Í gær átti Henning Freyr Henningsson þess ekki kost að vera við störf með Ingvari Guðjónssyni í þjálfarahópi Hauka en í skarðið hljóp Ívar Ásgrímsson þjálfari A-landsliðs kvenna.
Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar í Garðabæ er einn þeirra sem hafði veru Ívars á Haukabekknum á orði en Hrafn setti eftirfarandi inn á Twitter og spurði hvernig fólki fyndist ef Craig Pedersen myndi mæta á bekkinn hjá KR sem aðstoðarþjálfari:
Svona almennt talað….Hvernig myndi fólki finnast það ef Craig Pedersen tæki að sér að vera aðstoðarþjalfari hjá liði í Dominos deildinni?
— Hrafn Kristjánsson (@ravenk72) March 8, 2016
Við nánari athugun Karfan.is þá er ekkert því til fyrirstöðu í regluverkinu að landsliðsþjálfarar séu að þjálfa hjá aðildarfélögum KKÍ. Karfan.is leitaði viðbragða formanns KKÍ sem sagði ekkert að því að Ívar hefði hlaupið í skarðið fyrir Henning Henningsson.
„Eftir því sem við vitum best þá var tilfallandi að Ívar væri á bekknum í gær þar sem Henning Henningsson aðstoðarþjálfari var erlendis og kemur heim í dag. Það vantaði því mann til að aðstoða Ingvar þjálfara. Ívar er að þjálfa hjá Haukum og því ekkert að því að hann hlaupi í skarðið í einum og einum leik og samkvæmt okkar upplýsingum þá verða leikirnir ekki fleiri hjá Ívari á bekknum með kvennaliði Hauka nema eitthvað komi uppá sem við sjáum ekki fyrir í dag,“ sagði Hannes S. Jónsson formaður KKÍ um málið.
Aðspurður um hvort þörf væri á því að hafa einhverjar verklagsreglur eða aðrar reglur t.d. í kringum A-landsliðsþjálfara og aðkomu þeirra að félagsliðum í íslensku deildunum sagði Hannes:
Staðan í dag er þannig A-landsliðþjálfarar eru ekki þjálfa í efstu deildinni hjá því kyni þar sem þeir eru að þjálfa landslið. Eins og kom fram fyrr í svari mínu þá var þetta einstakt tilfelli í gær sem á sér eðlilegar skýringar.
Ég tel ekki að það sé þörf á sérstökum verklagsreglum í þessu sambandi, á undanförnum árum hefur það alveg komið fyrir að A-landsliðsþjálfarar eru að þjálfa félagslið í efstu deild. Ég held að það sé ávallt best að A-landsliðsþjálfari sé ekki að þjálfa í efstu deild hjá því kyni sem hann þjálfar en þá er ég ekki þar með að útiloka að það geti gerst í framtíðinni. Þetta hefur nú einnig oft verið rætt varðandi yngri landsliðsþjálfarana okkar, ekki bara A-landsliðsþjálfarana og þá næstum þannig að þeir sem þjálfi landslið ættu ekki að þjálfa félagslið. Ég get bara ekki séð hvernig það ætti að ganga upp því það eru 12 aðalþjálfarar landsliðanna okkar í dag og 15 aðstoðarþjálfarar. Ætti þá bara að útloka hátt í 30 landsliðsþjálfara frá því að þjálfa hjá félagsliðunum? Ég veit að við höfum ekki efni á því þjálfunarlega séð í hreyfingunni.“



