Það ætti ekki að hafa farið framhjá nokkrum áhugamanni um körfubolta og jafnvel þó víðar væri leitað að Ólafur Rafnsson hefur boðið sig fram sem forseti Körfuknattleikssambands Evrópu (FIBA Europe). Ólafur sem er núverandi forseti ÍSÍ og fyrrverandi formaður KKÍ hefur lengi setið í nefndum og stjórn FIBA Europe og því kemur það í sjálfu sé ekki á óvart að hann skuli stíga þetta skref. Karfan.is hitti Ólaf nú stuttu fyrir jól og ræddi framboðsmál, körfuknattleiksferilinn og félagsstörfin.
Hvernig gengur framboðið, er komið mótframboð?
Það er ekki fyllilega raunhæft að velta fyrir sér stöðu framboðsins að því leyti til að ennþá er ég eini frambjóðandinn sem hefur opinberlega gefið tilkynningu um slíkt. Ég veit þó af sterkum aðilum sem hafa sýnt framboði áhuga, og á frekar von á því að mótframboð líti dagsins ljós. Kosningin fer ekki fram fyrr en í maí næstkomandi, í München í Þýskalandi, og ef að líkum lætur á talsvert eftir að gerast á þeim tíma.
Hvað fékk þig til að fara í þetta framboð ?
Meginforsenda ákvörðunar um að fara í framboð var þrýstingur frá fjölmörgum aðildarríkjum, hversu klisjukennt sem slíkt kann að hljóma. Það er nokkuð langt síðan farið var að nefna þetta við mig, og ég tók því hreinlega ekki alvarlega í fyrstu. Ég vona að þetta feli í sér að menn hafi verið ánægðir með mín störf innan framkvæmdastjórnar og nefnda FIBA Europe. Línur hafa svo verið að skýrast á þessu ári, og meiri alvara á bak við viðræður – og á endanum var þetta orðin spurning um ákvörðun. Og hún liggur fyrir.
Hafa verið gerðar skoðanakannanir?
Þetta er í sjálfu sér ekki flókinn kjósendahópur, þar sem um er að ræða eitt atkvæði fyrir hvert hinna 51 aðildarsambanda FIBA Europe. Stærstan hluta forsetanna og framkvæmdastjóranna þekki ég býsna vel persónulega eftir að hafa starfað á vettvangi körfuknattleiks í Evrópu í 18 ár, þar af í tæp
síðustu 8 ár innan framkvæmdastjórnar FIBA Europe. Óformlegar skoðanakannanir hafa vissulega farið fram með þeim hætti að leita eftir afstöðu og stuðningi, en meginforsenda ákvörðunar um að fara í þetta framboð eru yfirlýsingar að frumkvæði býsna margra sambanda sem ég lýsti áðan. Slíkt er verðmætt, og að mínu mati marktækari vísbending um tryggan stuðning.
Það er spurning hvaða leið Ólafur á að fara til að safna atkvæðum, sá er viðtalið tók átti spjall við framkvæmdastjóra danska sambandsins, Rasmus Winkel, á dögunum og spurði hvort Danir myndu kjósa Ólaf. Winkel svaraði því svo að á meðan Ólafi færi ekki fram í golfi þá væri pottþétt að Danir myndu kjósa hann.
Þarf eitthvað að breyta til innan evrópsks körfubolta? Hverju þá?
Menn geta í sjálfu sér endalaust skipst á skoðunum um leiðir til framþróunar fyrir evrópskan körfuknattleik. Framhjá því verður vart litið að Evrópa er leiðandi álfa í körfuknattleik í heiminum í dag, og er ég þar meðal annars að vísa annarsvegar til fjölda og árangurs evrópskra liða á heimsvísu og hinsvegar til þeirra áhrifa sem evrópskur körfuknattleikur hefur haft á til að mynda. NBA deildina í Bandaríkjunum. Þar sjáum við þróun sem hefur að ýmsu leyti verið í átt að evrópskum bolta, og jafnframt hefur bæði fjöldi evrópskra leikmanna orðið meiri og hlutverk þeirra stærra í NBA deildinni.
Ef einhverju þyrfti að breyta innan Evrópu má nefna þann klofning sem varð á milli sérsambanda og landsliða undir merkjum evrópska körfuknattleikssambandsins annarsvegar og hóps sterkustu félagsliðanna undir merkjum ULEB og EuroLeague hinsvegar, en sú staða er býsna flókin og djúpstæð. Auk þess eru fjölmörg önnur málefni sem ég hyggst kynna sem mín stefnumál í framboðinu þegar nær vori dregur.
Hvernig er annars stjórnkerfi FIBA og svo FIBA Europe?
Í stuttu máli er stjórnkerfið þannig að Alþjóðakörfuknattleikssambandið FIBA, sem staðsett er í Genf í Sviss, er myndað af fimm sjálfstæðum álfusamböndum, þar með talið FIBA Europe, sem nýlega opnaði nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar í München í Þýskalandi. Hvert álfusamband hefur sína stjórn, til dæmis eiga innan stjórnar FIBA Europe sæti 23 einstaklingar auk forseta og gjaldkera, hefðbundinnar flóru nefnda og 30-40 starfsmanna. Annast álfusamböndin mótahald innan sinna svæða, útbreiðslu og tæknileg atriði. Miðstjórn FIBA í Genf er svo mynduð af fulltrúum álfusambandanna – auk forseta sem skiptist reglulega á milli álfusambandanna, fjögur ár í senn. Raunar var regluverki FIBA breytt talsvert nú fyrr í desember, þótt ekki komi allar þær breytingar til framkvæmda þegar í stað, en heimsþingið verður haldið í Tyrklandi í tengslum við Heimsmeistaramótið þar næsta sumar. Þetta er auðvitað afar einfölduð mynd af flóknu stjórnkerfi sem tæki lengri tíma að útskýra.
Hefur þetta áhrif? á hlutverk þitt sem forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands?
Það er ljóst að einhverjar breytingar verða á mínum högum við að sinna breyttum hlutverkum ef til þess kemur að ég nái kjöri. Áhrif á stöðu mína innan ÍSÍ ættu fyrst og fremst að vera jákvæð, svo sem með auknum áhrifum og tengslum fyrir Íslands hönd á erlendri grundu – og slíkt væri engan veginn einskorðað við körfuknattleik, heldur einnig önnur alþjóðleg sérsambönd og síðast en ekki síst Ólympíuhreyfinguna, því alþjóðlegu sérsamböndin hafa þar gríðarlega sterka stöðu. Komi til þessa myndi ég væntanlega draga nokkuð úr lögmannsstörfum mínum, og er það von mín að það opni mér tækifæri til þess að eyða jafnvel meiri tíma en ég hef gert í þágu ÍSÍ. Ég hef reyndar verið duglegur að mæta á flesta þá viðburði sem ég er boðinn til, og viðeigandi er að forseti mæti á, enda einstaklega gaman að ferðast innanlands og heimsækja fólk í grasrót íþróttahreyfingarinnar, og trúi ég því að þar verði engin breyting á. Vonast raunar til að komast í fleiri slíkar heimsóknir fyrir vikið. Vissulega geta komið upp atvik þar sem viðburðir rekast á, en það er nokkuð sem hefur og mun ávallt gerast hvort heldur slikt lýtur að starfi eða fjölskyldu. Í flestum tilvikum er virkur hópur staðgengla sem sækir þá ótal mörgu viðburði sem forseta ÍSÍ er boðið til – og mér hefur þótt vænt um þann hlýja stuðning sem ég hef fengið frá því fólki sem hefur verið mér við hlið hjá ÍSÍ við þessa ákvörðun. Ég á ekki von á öðru en að þetta muni geta farið vel saman – og þvert á móti orðið til góðs að forseti ÍSÍ geti með þessum hætti helgað sig íþróttamálum – og það á vettvangi sem gagnast íslensku íþróttalífi afar vel.
Er starf forseta FIBA Europe fullt starf?
Nei, þetta hefur verið fremur kjörin virðingarstaða, þar sem viðvera forseta er bundin við stærstu viðburði – á borð við Evrópukeppnir landsliða – auk funda álfustjórnar og heimsstjórnar og mikilvægra funda með hagsmunaaðilum. Hinsvegar veldur hver á heldur, og mín stefna yrði meðal annars sú að taka virkari þátt í því að brúa bilið á milli kjörinna og ráðinna fulltrúa. Það er ákveðinn kostur að vera í þeirri stöðu að geta almennt ákvarðað hvenær fundir eru haldnir á báðum stöðum, og ætti það að auðvelda það að nýta tímann betur.
Nú ert þú lögfræðingur að aðalstarfi, verður tími til að sinna því meðfram forsetahlutverkunum?
Eins og fyrr segir þá er þetta sá þáttur sem ég myndi gera ráð fyrir að draga mest saman ef af kosningu yrði – og verður reynslan að skera úr um í hvaða mæli það yrði. Það hefur reyndar gengið ótrúlega vel að nýta tíma í ferðalögum innanlands og erlendis með nútímatækni á borð við Blackberry og fartölvu, en ég neita því ekki að álagið hefur stundum verið mikið ef annríki er á mörgum vígstöðvum. Því miður hefur þá helst verið stolið tíma frá fjölskyldu og vinum.
Verður mikið um ferðalög?
Óhjákvæmilega fylgja þessu embætti nokkur ferðalög. Hafa ber i huga að ég hef setið þarna í stjórn í 8 ár og verið afar virkur í nefndum og fjölmörgum verkefnum í þágu sambandsins, sem hafa falið í sér umtalsverð ferðalög undanfarin ár. Sem forseti myndi ég láta af þeim nefndar- og verkefnastörfum, en á móti koma margvíslegar skyldur þar sem í senn er gerð krafa um að forseti mæti, og hinsvegar ýmis boð sem vega þarf og meta hverju sinni – með sama hætti raunar og hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Forseti getur ekki verið allsstaðar. Svo er aftur annað mál að maður myndi
reyna eftir fremsta megni að samræma ferðir í verkefni á vegum ÍSÍ og FIBA Europe.
En ef við snúum okkur að upphafinu, hvenær hófust afskipti þín af körfubolta?
Ég æfði handbolta og fótbolta með FH upp alla yngri flokkana, en var einn af þeim piltum sem Ingvar Jónsson fékk yfir í körfuknattleikinn í Haukum á bernskuárunum þar. Ég byrjaði þannig í sjálfu sér frekar seint að æfa körfu, eða í kringum 14 ára aldurinn, og lenti þar í félagsskap góðra pilta sem réði miklu um framhaldið. Þetta var hópur sem hélt býsna vel saman, var sigursæll í gegnum alla yngri flokkana, og náði líklega hápunkti með íslandsmeistaratitli Hauka árið 1988 – þeim eina í meistaraflokki karla hjá Haukum enn sem komið er. Ég hætti raunar að æfa körfubolta með meistaraflokki það ár, enda í laganámi og fullu starfi með, ásamt því að vera að stofna heimili. Ég náði að þjálfa alla flokka hjá Haukum, þar með talið meistaraflokka karla og kvenna, en ég hygg að lítið markvert hafi skráðst í sögubækur af þeim ferli.
En hvernig kom til að þú fórst að sinna stjórnunarstörfum innan körfuboltans?
Það var tilviljunum háð eins og svo margt annað. Ég var beðinn um að sækja ársþing KKÍ fyrir hönd Hauka árið 1990 – þá nýútskrifaður lögfræðingur – og einhvernveginn þróaðist það þannig að ég var kjörinn í varastjórn Körfuknattleikssambandsins á þessu fyrsta þingi. Það hefur loðað við mig að vera tiltölulega virkur á fundum og þingum – og einhverntímann var litið á það sem leið til að róa menn niður, eða jafnvel þagga í þeim, að fela þeim meiri verkefni. Ég varð fyrst gjaldkeri, og varaformaður, og svo kjörinn formaður sambandsins árið 1996, og gegndi því embætti í 10 ár. Í sjálfu sér eðlilegur tröppugangur og áhugi á því að fá sterkara umboð til þess að vinna áhugamálinu framgang. Ég hef ekki viljað, og vona að ég muni aldrei vilja, vera farþegi í félagsstarfi.
Svona í lokin, hvaða áhrif hefur það á íslenskan körfubolta ef þú verður kosinn?
Ég hygg að áhrif verði ekki sjáanleg þegar í stað, þótt mér myndi ekki leiðast ef augu Íslendinga fyrir hinum stórskemmtilega evrópska körfuknattleik myndu opnast í kjölfarið. Eflaust má nefna þá virðingu, heiður og athygli sem Ísland fengi, en mínir góðu félagar hjá KKÍ vita það að ég mun ekki ganga í þetta embætti til að hygla einum eða neinum. Til þess þekkja menn mig of vel. Á hinn bóginn hef ég á undanförnum árum barist fyrir ýmsum málum á vettvangi FIBA Europe sem hafa gagnast Körfuknattleikssambandi Íslands bæði almennt og sértækt. Er þar í senn um að ræða fjárhagsleg atriði sem tæknileg. Ég vil hinsvegar sjá fleiri fulltrúa frá Íslandi sækjast eftir trúnaðarstörfum á þessum vettvangi, enda margir sem hafa burði til þess og hafa án efa margt fram að færa.
Við þökkum Ólafi kærlega fyrir gefa sér tíma til að svara spurningum okkar og óskum honum og fjölskyldu hans gleðilegra jóla ásamt velgengni í framboði sínu.
Mynd: Gunnar Gunnarsson



