FSu fær liðsstyrk fyrir komandi átök í 1. deild karla á næsta tímabili en Hlynur Hreinsson hefur sagt skilið við KFÍ og þá er Birkir Víðisson að snúa aftur heim eftir veru við nám í Chuckey Doak miðskólanum.
Á heimasíðu FSu segir:
Tveir leikmenn hafa bæst í hópinn hjá FSu fyrir næsta tímabil. Hlynur Hreinsson hefur fært sig um set en hann lék með KFÍ á síðasta tímabili þar sem hann lék um 20 mín að meðaltali og skoraði að meðaltali 4,2 stig í leik. Hlynur er leikstjórnandi og er 20 ára gamall.
Annar leikmaður sem mun leika með FSu á næsta tímabili er Birkir Víðisson. Birkir þekkir vel til í Iðu en þar hefur hann nánast alist upp. Hann snýr nú heim frá Bandaríkjunum þar sem hann lék í miðskóla með Chuckey Doak High school. Birkir er fjölhæfur leikmaður sem steig sín fyrstu skref í úrvalsdeild aðeins 14 ára gamall, en hann er 18 ára í dag.
Þessir tveir ungu menn munu styrkja lið FSu mikið en von er á frekari fréttum af leikmannamálum hjá liðinu fljótlega.
Þá hefur FSu sett nýja heimasíðu í loftið fyrir klúbbinn sem nálgast má hér.
Mynd/ [email protected] – Hlynur Hreinsson í leik með KFÍ gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni á nýafstaðinni leiktíð.