Hlynur Bæringsson stendur á vissum tímamótum því samningur hans við Sundsvall klárast nú í lok maí og óvíst er hvað tekur við. " Ég er að klára samninginn minn hérna, klárast í lok maí. Ég þarf því að huga að því hvað ég ætla að gera næsta vetur og ætla að nota vorið í það. Vonandi mun ég hafa einhverja valmöguleika í sumar." sagði Hlynur í samtali við Karfan.is og bætti við að Sundsvall væri vissulega kostur. "Það er alveg möguleiki. Kostir og gallar við það. Fæ ábyggilega fínan samning og ákveðið öryggi en þá er eg líka kannski fastur í ákveðnum þægindahring."
En hvernig hefur þessi vetur verið fyrir Hlyn og félaga í Sundsvall?
"Veturinn í heild sinni var erfiður, vorum með fínan mannskap en náðum aldrei að spila á þeirri getu sem mér fannst að liðið ætti að geta, eitthvað vantaði uppá. Úrslitakeppnin var í heild sinni ágæt, við unnum LF 3-0 sem var mikilvægt fyrir marga í þessum klúbb, það var mjög gaman og í raun hápunktur tímabilsins. Í undanúrslitunum á móti Södertalje voru þeir svo bara einfaldlega betri, við áttum í raun aldrei séns í þá, sérstaklega ekki á þeirra heimavelli. Það var því ansi margt sem vantaði uppá þar en helst var það kannski að þeir eru betri í að fá í gegn sína styrkleika, stjórna leiknum betur en við gerðum. Þeir eru rútineraðir og kunna að stjórna svona leikjum."
En hvað tekur við núna eftir tímabilið?
"Ég mun ekki taka mér langt frí þó æfingarnar munu breytast, ég fer nánast strax að æfa sjálfur, bæði í lyftingasalnum og skotæfingar. Tek mér svo smá frí í júní áður en landsliðið byrjar að æfa fyrir EM. Það er víst ekki vanþörf á að vera í sæmilegu formi þegar kemur að því móti!"
Möguleiki á því að koma heim og spila?
"Nei það er ekki líklegt, tek nokkur ár vonandi erlendis áður en eg kem heim og spila"



