Sundsvall Dragons unnu sinn þriðja deildarsigur í röð í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Liðið mátti þola tap í fyrstu umferðinni en hefur svarað því með góðum sigrum síðustu þrjá leiki. Karfan.is náði tali af Hlyni Bæringssyni sem kvað það gott fyrir sálartetrið að vinna og bætti við að það væri engin fífldirfska á ferðinni þegar hann segði Sundsvall hafa burði til að vinna titilinn þetta tímabilið.
Þrír sigrar í röð, eru menn að kvitta fyrir tapið í fyrstu umferðinni og snerti það tap streng í brjósti manna? „Nei nei, svo sem ekki, erfitt að kvitta fyrir eitthvað á móti öðrum liðum en það er nú bara gott fyrir sálartetrið að vinna, maður er allur léttari.“
Hvernig er landslagið orðið í deildinni frá síðasta tímabili, Boras og Södertalje eru að byrja vel, eru þau með sterka hópa í ár? „Södertalje eru mjög sterkir og einnig líklegastir. Boras verða ágætir en ég á ekki von á þeim í alvöru titilbaráttu, þeir verða í kringum 5. sætið. Uppsala eru svo líklegir þetta árið enda búnir að bæta mikið við sig og eiga enn eftir að bæta við mönnum skilst mér.“
En hvað með Sundsvall, raunhæft með í baráttunni um titilinn?
„Heldur betur, við ætlum allataf að vinna þetta. Held að það sé engin fífldirfska hjá okkur.“



