,,Mér fannst vanta alla orku í okkur í síðasta leik og þurftum því að ná okkur af stað og okkar áhorfendum svo ég lét bara vaða og myndi þá bara líta illa út ef þetta hefði klikkað,“ sagði Hlynur Bæringsson um tröllatroðslu sína í fyrri hálfleik en Hlynur var hinn kástasti eftir leik þar sem Snæfell jafnaði í kvöld úrslitaeinvígið 1-1 gegn Keflavík. Liðin mætast svo í sínum þriðja leik næsta laugardag kl. 16:00.
,,Það er mjög líklegt að næstu leikir verði jafnari en þessir fyrstu tveir en ég finn góða strauma með okkur og við höfum ofboðslegt sjálfstraust núna og förum fullir sjálfstrausts til Keflavíkur í þriðja leikinn,“ sagði Hlynur en er hann ánægður með nýja liðsmanninn Jeb Ivey?
,,Þetta er vissulega ömurleg staða sem við lendum í en þetta er vissulega það langbesta sem gat gerst. Ég held að ég hefði frekar viljað sleppa þessu ef það hefði verið inni í myndinni að taka leikmann sem við þekktum ekki neitt. Með leikstjórnandann er þetta erfitt og í fyrri hálfleik vorum við í smá vandræðum en Ivey er skýr gaur og búinn að vera mörg ár í atvinnumennsku. Menn mega líka vera í ansi góðu formi ef þeir spila eins og Jeb gerði í kvöld eftir svona ferðalag, ég veit að ég hefði sofnað bara og því er ég mjög ánægður með hann og sérstaklega varnarlega. Hann gerði Herði Axel lífið leitt og maður sá það strax í augunum á honum,“ sagði Hlynur en var sigurinn í kvöld einhver andagift sem vantaði í hópinn?
,,Þessi sigur er góður til þess að sannfæra sjálfa okkur um að við getum orðið meistarar og við erum sannfærðir.“



