spot_img
HomeFréttirHliðarendapiltar í hörkuformi

Hliðarendapiltar í hörkuformi

 

Valsmenn unnu nokkuð þægilegan sigur á Breiðabliki í kvöld í Smáranum, 75-85.  Hlíðarendapiltar eru á mikill siglingu en þetta var sjöundi sigur þeirra í röð í deildinni en að auki hafa þeir farið hamförum í Maltbikarnum, hvar þeir eru komnir í undanúrslit og mæta Íslandsmeisturum KR.  Valsarar standa nokkuð vel að vígi í Í 1. deild karla og hafa unnið 13 leiki en aðeins tapað þremur. Eina liðið sem státar af betri árangri er topplið Hattar en þessi tvö lið eiga einmitt eftir að mætast tvisvar sinnum á næstu vikum. Þá mætast stálin stinn! Blikar eru sem fyrr í 4. sætinu og allt útlit fyrir að þeir endi þar þegar deildinni lýkur í næsta mánuði. Það kann þó að breytast.

 

Af hverju vann Valur?

Valur vann þennan leik vegna þess að leikáætlun þeirra gekk út á að spila á fullum krafti í 40 mínútur. Þeir komu vel stemmdir til leiks, börðust af krafti og voru tilbúnir í átökin. Blikar voru ekki með í byrjun og gerðu aðeins 4 stig á fyrstu átta mínútunum! Þá voru sveinar séra Friðriks komnir með 23 stig, og það bil náðu Blikar aldrei að brúa þrátt fyrir nokkra lipra spretti.

 

Þeir sem sigldu á sælum sel

Byrjunarlið Vals lék allt mjög vel í kvöld enda gerðu þeir 78 af 85 stigum liðsins! Þeir léku vel sem heild og þeir sem komu af bekknum gerðu líka góða hluti þótt þeir væru ekki iðnir við kolann í stigaskoruninni. Hjá Blikum átti Snorri ágætisleik; hann byrjaði leikinn þó illa og brenndi af nokkrum sniðskotum en barðist eins og ljón og gaf ekkert eftir; Birkir átti ágætis spretti og Kjartan Atli og Atli nýttu sínar mínútur vel.

 

Þeir sem runnu af rostungum

Erlendi leikmaður Blika, Tyrence, virðist vera heillum horfinn þessa dagana og verður að segja eins og er að það er nánast skemmtilegra að horfa á nautahakk þiðna en að fylgjast með frammistöðu hans á vellinum.  Hann var mjög góður með Blikum fyrir jól en þarf að finna fjölina sína á ný í næstu leikjum ef ekki á illa að fara. Þá verða Blikar að gyrða sig í brók í fráköstunum en þeir hafa ekki haft betur undir körfunum við andstæðinga sína síðan þeir rótburstuðu Árman í nóvember, 123-51!

 

Hvað gerist næst?

Valsarar eru á leið í Höllina á fimmtudaginn þar sem þeir mæta KR-ingum í undanúrslitum Maltbikarsins. Þeir hafa nú þegar slegið út þrjú úrvalsdeildarlið og spurning hvernig þeim reiðir af gegn firnasterkum Vesturbæingum. Blikar eiga erfitt verkefni fyrir höndum þegar þeir arka á ný í Grafarvoginn og mæta Fjölni 24. febrúar nk.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Gylfi Freyr Gröndal

Myndir / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -