Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram á Menningarnótt í Reykjavík. Þar hlaupa þátttakendur hlaupa heilt, hálft eða 10 km fyrir góð málefni.
Körfuboltamenn, dómarar og aðrir í kringum körfuboltann á Íslandi taka að sjálfsögðu þátt í ár fyrir hin ýmsu málefni. Fljótastur í hálf maraþoninu í fyrra var Arnar Pétursson sem lék með Breiðablik í nokkur ár en hann er talin sigurstranglegur í ár einnig.
Einn þeirra sem hleypur þetta árið er leikmaður bikarmeistara Vals Frank Aron Booker, en hann hleypur fyrir Gleym-Mér-Ei sem er styrktarfélag fyrir fyrir foreldra sem missa á meðgöngu, í eða fljótlega eftir fæðingu.
Samkvæmt síðu hans inni á síðu Reykjavíkurmaraþons þá hleypur Frank Aron til minningar um dóttur sína Nataliu Ósk sem hann og kona hans misstu þann 15. mars 2024. Karfan hvetur þá sem geta til þess að leggja Frank Aron og hlaupahópi hans lið með að heita á þau í þessu hlaupi, en til þessa hefur hópurinn safnað 84 þúsund krónum.



