Eftir æsispennandi lokamínútur vann Fjölnir sinn fyrsta leik á tímabilinu í Domino´s deild karla þegar KR kom í heimsókn. Fyrir leiktíðina var Fjölni spáð 10. sæti í deildinni en KR titlinum. Fjölnismenn sem hafa síðustu tvö tímabil verið sorglega nærri því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni ætla greinilega ekki að láta hana sér úr greipum ganga þessa vertíðina. Árni Ragnarsson fór fyrir Fjölni í kvöld og var eins og ,,Tasmaníudjöfull" um allan völl en hjá KR voru þeir Brynjar Þór Björnsson og Martin Hermannsson beitir.
Eftir fínan fyrri hálfleik í kvöld sem var opinn og skemmtilegur var smá loft úr mönnum og sá síðari var nokkuð mistækur og gulir lentu í bullandi vandræðum en náðu engu að síður að klára KR með þá Jón Sverrisson og Tómas Heiðar utan vallar prýdda fimm villum. Hjalti Þór vann því sinn fyrsta sigur sem aðalþjálfari í úrvalsdeild og tók nýliðaslaginn millum sín og Helga Magnússonar en báðir eru á fyrsta ári í hinum ábyrgðarmikla stól þjálfara.
Chris Matthews var heit höndin í upphafi leiks og kom hann Fjölni í 8-5 með þriggja stiga körfu en þá hafði hann gert átta fyrstu stig heimamanna í leiknum. Liðin skiptust á forystunni þangað til í stöðunni 17-16 fyrir gula en þá tók KR við sér. Helgi Magnússon spilandi þjálfari KR var farinn á tréverkið með tvær villur og röndóttir rúlluðu vel á stóru leikmönnum sínum sem bakaði Fjölni vandræði.
Þó Chris hafi verið utan vallar hjá Fjölni var það Árni Ragnarsson sem steig upp og reyndist KR erfiður en gestirnir leiddu engu að síður 22-25 að loknum fyrsta leikhluta sem var opinn og fjörugur og jafnvel minni haustbragur á honum en margir höfðu búist við.
Jóel Sæmundsson opnaði annan leikhluta með þrist og jafnaði fyrir Fjölni í 27-27 en annar leikhluti bar keim af þeim fyrsta, opinn og skemmtilegur og liðin skiptust á forystunni.
Árni Ragnarsson hélt áfram að hrella KR og Brynjar Þór refsaði gulum með þrist í hvert sinn sem þeir voguðu sér að falla af honum. Um miðbik annars leikhluta komust heimamenn í 33-29 eftir stolinn bolta frá Arnþóri. Á sama tíma voru Helgi Magnússon, KR, og Tómas Heiðar, Fjölni, að landa sinni þriðju villu og voru rólegir það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.
Watt bætti sér í þriggja villu hópinn í liði Fjölnis þegar hann fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og hélt á tréverkið. Brynjar Þór og Björgvin Ríkharðsson skiptust svo á þristum og KR leiddi 41-42 en það voru gulir sem reyndust beittari á lokasprettinum. Í stöðunni 47-47 átti Fjölnir lokasóknina sem var skemmtilega útfært ,,pick and roll" hjá Árna Ragnarssyni og Jóni Sverrissyni sem lauk með körfu frá Jóni rétt áður en fyrri hálfleikur rann út.
Christopher Matthews var með 12 stig hjá Fjölni í hálfleik en það þarf ekkert að segja þeim kappa að skjóta, það gerist nánast sjálfkrafa þegar hann valsar sér yfir miðju. Næstur honum var Árni Ragnarsson með 10 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá KR var Brynjar Þór með 12 stig og 3 stoðsendingar og Finnur Atli með 10 stig og 5 fráköst.
KR fékk að leika stíft í fyrri hálfleik og ekki laust við að þeir fengju smá drottningarmeðferð með 22 vítaskot fyrstu 20 mínútur leiksins en ásetningur þeirra var augljós, ráðast á Fjölni þar sem þeir eru fáliðaðir eða í stöðum stórra leikmanna.
Skotnýting Fjölnis í fyrri hálfleik
Tveggja 53,8% – þriggja 33,3% og víti 69,2%
Skotnýting KR í fyrri hálfleik
Tveggja 45% – þriggja 33,3% og víti 77,3% (KR með 22 víti í fyrri hálfleik!)
Gestirnir úr vesturbænum héldu stórsókn sinni áfram inni í teig Fjölnis í síðari hálfleik og dropinn fór svo sannarlega að hola steininni. Að loknum þriðja leikhluta voru Jón Sverrisson, Tómas Heiðar og Arnþór Freyr allir komnir með fjórar villur í liði Fjölnis.
Heimamenn svöruðu illa sóknaraðgerðum gestanna og KR byrjaði síðari hálfleik með 2-7 dembu. Brynjar Þór kom KR svo í 57-64 þegar boltinn dansaði ofan í ,,ala-Brilli" eftir þriggja stiga skot. Vörn heimamanna mátti sín lítils og fékk á sig 25 stig í þriðja leikhluta en eftir þrjá leikhluta höfðu liðin tekið 56 vítaskot. Svo sem ekki skemmtilegt áhorfs þessi villuleikur og þriðji leikhluti nokkuð leiðitamari en fyrri hálfleikur.
Að loknum þriðja leikhluta var staðan 65-72 fyrir KR og fátt annað en batnandi varnarleikur gat bjargað Fjölni þegar hér var komið við sögu.
Eftir að hafa fengið 25 stig á sig í þriðja leikhluta hertu gulir róðurinn í vörninni og byrjuðu lokaleikhlutann 13-1. Á þessum tíma hrökklast Jón Sverrisson af velli hjá Fjölni með fimm villur og fyrirséð að gestirnir myndu sækja enn meira í teiginn gegn lágvöxnum heimamönnum.
Elvar Sigurðsson átti risavaxna körfu þegar hann kom Fjölni í 87-80 með þriggja stiga skoti úr hægra horninu. KR var þó ekki af baki dottið og með þrist frá Brynjari Þór var staðan orðin 89-85. Röð klaufamistaka hjá KR og reyndar Fjölni líka setti svip á lokasprettinn en Fjölnismenn stóðust prófið og fögnuðu afar mikilvægum sigri á KR 93-90.
Stigaskor leiksins
Fjölnir-KR 93-90 (22-25, 27-22, 16-25, 28-18)
Fjölnir: Christopher Matthews 30/4 fráköst, Árni Ragnarsson 19/13 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 11, Jón Sverrisson 9/8 fráköst, Gunnar Ólafsson 8, Elvar Sigurðsson 5, Arnþór Freyr Guðmundsson 4/6 fráköst/6 stoðsendingar, Tómas Heiðar Tómasson 4/5 stoðsendingar, Jóel Sæmundsson 3, Tómas Daði Bessason 0, Leifur Arason 0, Friðrik Karlsson 0.
KR: Brynjar Þór Björnsson 24, Martin Hermannsson 21/6 fráköst, Finnur Atli Magnusson 15/8 fráköst, Danero Thomas 15/12 fráköst, Helgi Már Magnússon 12/9 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 2, Ágúst Angantýsson 1, Darri Freyr Atlason 0, Sveinn Blöndal 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Kormákur Arthursson 0.
Dómarar: Davíð Kr. Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson, Halldór Geir Jensson
4. leikhluti 93-90 (28-18)
3. leikhluti 65-72 (16-25)
2. leikhluti 49-47 (27-22)
1. leikhluti 22-25
Byrjunarlið Fjölnis:
Tómas Heiðar Tómasson, Árni Ragnarsson, Arnþór Freyr Guðmundsson, Christopher Watt og Jón Sverrisson.
Byrjunarlið KR:
Martin Hermannsson, Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon, Danero Thomas og Finnur Atli Magnússon.
Skotnýting liðanna í leikslok
Fjölnir:
Tveggja 52% – þriggja 32% og víti 69% (29 víti)
KR:
Tveggja 45% – þriggja 27% og víti 78% (46 víti)
Mynd/ Björn Ingvarsson
Umfjöllun/ [email protected]