Hjalti Friðriksson og Dagur Kár Jónsson hafa ekki setið auðum höndum þessa leiktíðina í Domino´s deild karla. Kapparnir hafa allt frá upphafi tímabils verið í stöðugri sókn, þ.e. stöðugt að vinna á og leggja þyngri og þyngri lóð á vogarskálar sinna liða. Hjalti Friðriksson leikmaður ÍR hreinlega virðist ekki brenna af skoti í teignum þessi dægrin og þriggja stiga nýting Dags Kárs hefur hoppað upp um 36,8%. Svona uppgangi verður ekki komist hjá að taka eftir og því rýndi Karfan.is aðeins í tölur þeirra félaga frá október og fram til janúarloka á þessari leiktíð.
Í október var Hjalti að bjóða upp á 7 stig og 5,3 fráköst að meðaltali í leik. Framlagið í fjórum leikjum var að jafnaði 7 stig og 34,4% nýting í teigskotum. Í nóvember tók framlagið smá dýfu niður í 6,5 en skotnýtingin í teignum fór úr 34,4% í 35,9%. Stökkið varð öllu stærra í desember en þá spilaði Hjalti þrjá leiki og framlagið í þeim var að jafnaði 11,3 og teigskotin fóru úr 35,9% í 48,5%. Skoteldarnir á gamlárskvöld hafa svo vísast losað um einhvern villikött í Hjalta því þá fjóra leiki sem hann hefur spilað í janúar með ÍR er framlagið farið úr 11,3 í 18,5 að meðaltali í leik og teigskotnýtingin sem í desember var 48,5% er orðin 59,6% í janúarmánuði og aldrei á tímabilinu hafa mínúturnar verið fleiri en Hjalti lék að jafnaði 35,11 mínútur með ÍR í janúar.
Í október lék Stjarnan þrjá leiki þar sem Dagur Kár var með 6,7 framlagsstig að meðaltali í leik og þriggja stiga nýtingin var 18,2%. Strax í nóvember tók Dagur Kár stórt stökk og var með 14,2 framlagsstig að jafnaði í fimm leikjum og þriggja stiga nýtingin fór úr 18,2% í 34,8%. Dagur Kár er örugglega jólabarn mikið því í desember hélt hann áfram að bæta við sig snúning, framlagið úr 14,2 í 18,3 og svo í janúar í fjórum leikjum með Stjörnunni var það orðið 19,5%. Eins er janúar hans besti mánuður fyrir utan þriggja stiga línuna með 55% skotnýtingu!
Staðan á strákunum með sínum liðum er svo annað mál. Stjarnan er í 6. sæti deildarinnar með 14 stig og hafa tapað tveimur leikjum í röð og verða næstu tvo leiki án Junior Hairston sem tekur út leikbann. ÍR aftur á móti hefur unnið tvo síðustu deildarleiki og þó þeim hafi ekki tekist fyrir vikið að hrista af sér 1. deildina þá eru þeir einnig í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppninni og framundan er úrslitaleikur í bikarnum. Verður forvitnilegt að fylgjast áfram með málum Hjalta og Dags og ekki síður Stjörnunnar og ÍR en nú eins og körfuknattleiksáhugafólk getur fundið á lyktinni í loftinu dregur óðar til tíðinda með hverri umferðinni.



