06:00
{mosimage}
(Hjalti Vilhjálmsson verður tilbúinn á morgun)
Hjalti Vilhjálmsson fyrirliði Fjölnis er bjartsýnn fyrir bikarúrslitaleikinn á morgun. Karfan.is ræddi við hann á blaðamannafundi KKÍ og Lýsingar sem fram fór á miðvikudag.
Gengi Fjölnis hefur verið slakt í vetur og liðið í fallbaráttu. Hjalti sagði að ef hann þyrfti að velja á milli þess að sleppa við fall eða vinna bikarinn þá myndi hann frekar taka bikarinn. Enda væri framtíð félagsins björt þar sem margir efnilegir leikmenn eru í félaginu. En stefnan er að sjálfsögðu að taka bikarinn og bjarga sér frá falli.
Hjalti viðurkenndi að jafn stór leikur og bikarúrslitaleikur hefði áhrif á lið Fjölnis í Iceland Express-deildinni en þrátt fyrir það væru menn vel stemmdir. ,,Það tekur svolítið á að fara í bikarúrslit og það tekur frá okkur í deildinni. Þrátt fyrir það er mikil tilhlökkun í hópnum. Við eigum fjóra leiki eftir í deildinni eftir að við höfum tekið bikarinn. Við rífum okkur vel upp og stöndum okkur í síðustu leikjunum,” sagði fyrirliðinn ákveðinn og bætti við. ,,Það er erfitt prógramm eftir bikarúrslitaleikinn. Við eigum suðurnesjaliðin og Þór á Akureyri og verðum að vinna allavega tvo af þeim.”
Hjalti hefur verið að kljást við meiðsli í vetur en hann sagði að hann yrði tilbúinn í leikinn og vonaði að Grafarvogsbúar myndu fjölmenna á leikinn.
Mynd: Snorri Örn Arnaldsson



