Símon B. Hjaltalín tók púlsinn á bæði Hólmurum og Stjörnumönnum fyrir viðureign liðanna í Lengjubikar karla í kvöld. Liðin mætast í Stykkishólmi kl. 19.15 og er aðeins eitt stig sem skilur liðin að fyrir leik kvöldsins. Snæfell dugir sigur til að komast í undanúrslit eða ,,hin fjögur fræknu“ í Lengjubikarnum en Stjarnan þarf að vinna með tveimur stigum eða meira til að komast áfram.
Fannar Freyr fyrirliði Stjörnunnar.
Sáttur með nýtt fyrirkomulag Lengjubikarsins?
Já ég er nokkuð sáttur með þetta nýja fyrirkomulag, þetta fjölgar leikjum. Ég hefði viljað sjá meiri umfjöllun fjölmiðla á þessari keppni.
Er auðvelt að peppa upp mannskapinn og hvernig leggst leikurinn þig og þína menn?
Já ég held að það verði mjög auðvelt fyrir menn að peppa sig upp í þennan leik. Leikurinn leggst bara mjög vel í okkur, þetta virðast vera svipuð lið að styrk miðað við úrslit síðustu tveggja leikja. Þannig að það verður erfitt eins og alltaf að fara í Hólminn.
Eitthvað sérstakt sem lagt er upp með í þennan leik frekar en aðra þar sem þetta er útsláttarleikur?
Ég held að það verði ekkert sérstakt sem lagt verður upp með. Bara að spila okkar leik og mæta klárir í þetta.
Hver finnst þér helsti munurinn á Stjörnunni og Snæfelli í ár ef einhver er?
Þetta eru tvö góð lið ég vil samt trúa því að við séum með meiri breidd heldur en Snæfell. Snæfell er eins og í fyrra með hörkulið og sterkan heimavöll.
Einhver orð til ykkar stuðningsmanna fyrir leikinn?
Vonandi sjáum við sem flesta Stjörnumenn á leiknum. Við eigum góðar minningar úr Hólminum frá því í fyrra:)
Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnumanna.
Sáttur með nýtt fyrirkomulag Lengjubikarsins?
Já, þetta báðu menn um, það er fleiri leikir. Þetta er auðvitað gríðarlegt álag á lið sem eru ekki að spila á mörgum leikmönnum en kemur sér vel fyrir framhaldið.
Er auðvelt að peppa upp mannskapinn og hvernig leggst leikurinn þig og þína menn?
Það ætti að vera auðvelt að gíra sig upp fyrir þennan leik. Verðlaunin eru skammt undan.
Eitthvað sérstakt sem lagt er upp með í þennan leik frekar en aðra þar sem þetta er útsláttarleikur?
Þetta verður skemmtilegt þar sem bæði lið verða vinna, ekkert stigaskor sem skiptir máli.
Hver finnst þér helsti munurinn á Stjörnunni og Snæfelli í ár ef einhver er?
Við erum í svipuðum pakka, spila á 7 mönnum og lítið má fara úrskeiðis, þessi lið geta unnið alla á góðum degi og tapað fyrir öllum á slæmum dögum.
Einhver orð til ykkar stuðningsmanna fyrir leikinn?
Vonandi að okkar fólk geri sér ferð vestur, fengum frábæran stuðning síðast þegar við fórum vestur og það endaði vel.
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells:
Sáttur með nýtt fyrirkomnulag Lengjubikarsins?
Fyrirkomulagið er góð hugmynd en því miður þá voru einungis þrjú lið í okkar riðli þar sem eitt lið dró sig út. Fyrirkomulagið þéttir leikjatörnina og er það vel, það á svo eftir að koma í ljós hvernig "Final Four" helgin kemur út en ég hef góða tilfinningu að það verði stemmning og allir verði sáttir við að hafa hápunkt svona snemma á tímabilinu.
Er auðvelt að peppa upp mannskapinn og hvernig leggst leikurinn þig og þína menn?
Við erum búnir að spila tvo leiki við Stjörnuna sem hafa endað með einu stigi og nú kemur Jovan besti Íslendingurinn inní hópinn hjá þeim og þetta verður krefjandi verkefni fyrir okkur. Leikurinn leggst vel í mig og menn eru stemmdir fyrir þessum "do or die" leik, ég vona að áhorfendur mæti vel og styðji við bakið á okkur.
Eitthvað sérstakt sem lagt er upp með í þennan leik frekar en aðra þar sem þetta er útsláttarleikur?
Nei, sama dæmið leikurinn breytist ekkert þó svo að mikilvægi hans sé kannski meira, það eru svona leikir sem menn eru að bíða eftir og við erum sáttir að geta spilað fyrir framan okkar fólk.
Hver finnst þér helsti munurinn á Stjörnunni og Snæfelli í ár ef einhver er?
Það eru breytingar á Snæfellsliðinu sem enn eru að tikka inn, liðið fór í öldusjó í upphafi tímabils en eru að ná betur og betur saman. Stjarnan misstu tvo góða drengi, Kjartan og Daníel en að sama skapi fengu þeir til sín góða menn og hafa enn svigrúm til að bæta við sig kanaígildi þar sem Justin og Jovan eru orðnir Íslendingar. Bæði lið hafa innanborðs magnaða keppnismenn sem draga liðin sín áfram.
Einhver orð til ykkar stuðningsmanna?
Nú er bara að mæta stemmd með okkur í Hólminn og hvetja liðið til dáða, við þurfum á því að halda og stuðningur getur riðið baggamuninn í leikjum þessara liða.
Pálmi Freyr Sigurgeirsson fyrirliði Snæfells:
Sáttur með nýtt fyrirkomnulag Lengjubikarsins?
Fyrirkomulagið er fínt og það er bara jákvætt að það sé búið að fjölga leikjum yfir tímabilið. Final four helgin heillar mikið og þangað viljum við komast.
Er auðvelt að peppa upp mannskapinn og hvernig leggst leikurinn þig og þína menn?
Leikurinn leggst vel í okkur. Við erum ánægðir með að spila úrslitaleik riðilsins á okkar heimavelli. Við erum allir klárir í þetta verkefni enda er sæti í Final four í húfi.
Eitthvað sérstakt sem lagt er upp með í þennan leik frekar en aðra þar sem þetta er útsláttarleikur?
Við nálgumst leikinn ekkert með öðrum hætti en vanalega fyrir aðra leiki.
Hver finnst þér helsti munurinn á Stjörnunni og Snæfelli í ár ef einhver er?
Mér finnst bæði lið vera með meiri breidd en í fyrra.
Einhver orð til ykkar stuðningsmanna?
Hvet alla Hólmara nær og fjær að mæta á leikinn og láta vel í sér heyra. Stuðningur ykkar er okkar sjötti maður inn á vellinum.
Símon B. Hjaltalín