spot_img
HomeFréttirHinrich sendur til Wizards í sparnaðaraðgerðum. Bulls leggja allt undir í LeBron-lottóinu

Hinrich sendur til Wizards í sparnaðaraðgerðum. Bulls leggja allt undir í LeBron-lottóinu

Chicago Bulls leggja nú allt kapp á að fá LeBron James til liðs við sig í sumar og hafa í þeim tilgangi náð að sannfæra Washington Wizards um að taka við samningi Kirk Hinrich, en auk þess skiptu þeir 17. valréttinum í nýliðavalinu í gær (sem nýttist til að velja Kevin Seraphin) til höfuðborgarinnar.
Ef þessi skipti ganga að fullu í gegn, en ekki má tilkynna formlega um þau fyrr en 8. júlí, hafa Bulls um 30 milljónir dala til reiðu undir launaþakinu, sem er nóg til að bjóða tvo toppsamninga. Ef Bulls sýna fram á að þeir geti fengið Chris Bosh eða Amare Stoudemire til liðsins, sem státar þegar af ungstirninu Derrick Rose, ætti það að vera nóg til að lokka James frá heimaliði sínu þar sem hann hefur leikið öll sín sjö ár í NBA.
 
Enn er þó allt á huldu með áætlanir LeBrons, en Miami er einnig með 43 milljónir lausar í sínum bókum fyrir Dwayne Wade og tvo aðra toppleikmenn með lausan samning.
 
Hvati Wizards fyrir þessum skiptum er hins vegar ekki eins skýr því að þeir eru að taka á sig 17 milljónir í laun til Hinrichs á næstu tveimur árum og hefðu ekki þurft að splæsa svo hressilega til að fá 17. valréttinn, þar sem Oklahoma þurfti aðeins að taka við 2 milljóna launasamningi Dequan Cook til að fá 18. valréttinn.
 
Þeir gætu hins vegar verið að horfa til þess að losna við Gilbert Arenas og þá láta Hinrich leika með nýliðanum John Wall, en "Captain Kirk" er umfram allt þekktur fyrir leiðtogahæfileika og góðan varnarleik og væri góð fyrirmynd fyrir Wall.
 
Næstu dagar og vikur ættu að verða með fróðlegara móti á markaðnum þar sem tveggja ára bið eftir safaríkasta Free-agent æði allra tíma fer í gang.
 
Fréttir
- Auglýsing -