22:47:05
LeBron James var í dag krýndur stærstu einstaklingaverðlaunum ársins í NBA þegar upplýst var að hann var kjörinn mikilvægasti leikmaður NBA í ár.
Ekki er hægt að segja að valið hafi komið á óvart, þar sem James hefur verið yfirburðamaður í deildinni í ár og stýrði Cleveland Cavaliers sem var með besta árangur í deildinni í ár.
Ítarleg umfjöllun um LeBron James hér að neðan…
Framan af vetri var álitið að valið stæði á milli James, Kobe Bryant og Dwayne Wade auk þess sem nafni Dwight Howard var haldið á lofti á meðan Orlando sveif sem hæst í upphafi leiktíðar.
Eftir því sem leið á var ljóst að Bryant, sigurvegarinn frá í fyrra, var ekki að leika eins stórt hlutverk í sínu liði og í fyrra, og slakt gengi Miami Heat var ekki að bæta stöðu Dwayne Wade, þar sem verðlaunin fara jafnan til leikmanna í toppliðum, nema mikið komi til.
James fékk 109 af 121 atkvæði í fyrsta sætið og fékk alls 1172 stig í kosningunni sem fjölmiðlafólk stendur fyrir á hverju ári. Bryant var í öðru sæti með 698 stig og Wade var með 680.
James, sem hefur leikið í sex ár í deildinni, átti frábært ár frá tölfræðilegu sjónarmiði þar sem hann var með 28.4 stig, 7.6 fráköst og 7.2 stoðsendingar, en hann var einnig í öðru sæti í valinu á varnarmanni ársins.
Hann er einungis 24 ára gamall og er yngsti verðlaunahafinn frá því að Moses Malone fékk þennan heiður árið 1979, en yngstur allra, en Wes Unseld er yngsti verðlaunahafi allra tíma þar sem hann var 23ja ára þegar hann varð þessa heiðurs aðnjótandi árið 1969.
James þykir hafa skapað sér eigin flokk með líkamsburðum og leikstíl, en aldrei hefur eins stór og kröftugur leikmaður (203sm og 130 kg) sýnt eins mikinn hraða og sprengikraft sem gerir hann að alhliða vopni í vörn og sókn. Það eina sem hægt var að herma upp á hann framan af ferlinum var að hann væri ekki framúrskarandi skytta hvort sem var frá vítalínunni eða utan 3ja stiga bogans. Það hefur breyst því hann setti í ár persónuleg met í skotnýtingu og vítanýtingu.



