spot_img
HomeFréttirHin gyllta fallhlíf Kobe Bryant

Hin gyllta fallhlíf Kobe Bryant

Framlenging Los Angeles Lakers á samningi Kobe Bryant hljóðar upp á $48,5 milljónir. Á gengi dagsins eru það u.þ.b. 5.800 milljónir íslenskra króna. Það gera að jafnaði 2.900 milljónir á ári, 241.667 milljónir á mánuði, 7,9 milljónir á dag, 331 þúsund á klukkustund og 5.500 krónur á mínútu. Í hvert skipti sem Kobe Bryant dregur inn andann á næstu tveimur árum mun hann þéna jafngildi 418 íslenskra króna.
 
Þetta eru fáránlegar tölur þegar þær eru settar í samhengi. T.d. þénar hann rétt undir einum meðalmánaðalaunum á Íslandi – á hverri klukkustund sem líður. Gylfi Sigurðsson, leikmaður Tottenham Hotspur á Englandi þénar jafnvirði tveggja mánaðalauna Kobe Bryant – á ári.
 
Mikið er rætt um þennan tröllvaxna samning þessa dagana. Þá sérstaklega í ljósi þess að Kobe Bryant er að koma til baka eftir hásinarslit sem ákaflega fáir körfuboltaleikmenn hafa snúið aftur frá með sömu getu ofan á þá staðreynd að hann er orðinn 35 ára. Kobe Bryant er hins vegar enginn venjulegur íþróttamaður og má því ekki vanmeta þann þátt nú þegar hann snýr aftur – að öllum líkindum í næsta mánuði.
 
Lakers eru að binda ansi mikið fjármagn og launaþaksrými í þessum samning við Kobe Bryant. Sérfræðingar hafa getið sig til um að það sé mögulega pláss fyrir einn leikmann með hámarkssamning en þá sé pláss fyrir góða aukaleikara ákaflega takmarkað. Pau Gasol, Jordan Hill, Steve Blake og Chris Kaman eru allir með lausan samning eftir þetta ár og verður ólíklegt að Gasol og Hill sætti sig við einhverja skiptimynt eftir þessi fjárútlát. Carmelo Anthony hefur verið orðaður við Lakers þegar hann verður með lausan samning eftir næstu leiktíð. Persónulega myndi ég hafa gaman af þeirri tilraun – að sjá Kobe og Melo í sama liðinu að fleygja upp 30 skotum hvor – en ólíklegt þykir þó að Melo fari frá þeim $130 milljónum sem honum standa til boða í New York. Eftir næstu leiktíð verður Kobe nánast eini leikmaður Lakers á launaskrá eins og staðan er í dag.
 
Kobe hefur fengið mikla gagnrýni í vefmiðlum fyrir að soga upp svona mikið fjármagn hjá Lakers í stað þess að semja um minna til þess að liðið geti byggt upp góðan leikmannahóp fyrir komandi ár. LeBron, Wade og Bosh gerðu það einmitt fyrir Heat á sínum tíma. Jordan þáði t.d. $1 milljón fyrir hvort tímabil þegar hann snéri til baka í annað skiptið og spilaði með Washington Wizards. Kobe hins vegar heldur því fram að þetta hafi ekki verið neinar samningaviðræður. Jim Buss, eigandi liðsins skellti þessu tilboði á borðið og hann þáði.
 
Peningar skipta alltaf máli fyrir atvinnuíþróttamenn, rétt eins og fyrir alla sem eru á vinnumarkaðnum. Kerfið sem NBA deildin og þá aðallega eigendur liðanna hafa sett saman er, ólíkt þeim kerfum sem almennt eru við lýði í bandarískum atvinnuíþróttum, hannað til þess að halda launakostnaði liðanna niðri, þó opinbera markmiðið sé að jafna hann út. Afleiðingarnar verða alltaf þær að stjörnuleikmenn fá ekki greitt það sem þeim ber.
 
Núvirtar heildartekjur Kobe Bryant frá Lakers eru samtals $318 milljónir. Umtalsvert hærri en t.d. Michael Jordan og LeBron James sem hann ber sig svo oft saman við en þeir hafa þénað $146 milljónir og $139 milljónir, þó LeBron James eigi umtalsvert eftir. Kobe þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að vera lægra launaður en þeir. Núvirtar heildartekjur Shaq hins vegar eru $374 milljónir og því mögulegt að Kobe ætli sér að toppa hann. Þessi samningur mun koma honum yfir Shaq.
 
Kobe hefur unnið fimm titla, einum færri en Michael Jordan og ég held að hann hafi játað sig sigraðan í þeirri deild. Hann er hins vegar aðeins 675 stigum frá því að hoppa fyrir ofan hann í heildarstigalista deildarinnar. Hann sér líklegast í hillingum stigamet Kareem Abdul-Jabbar sem enginn virðist komast nálægt. Kobe vantar 6.770 stig til að ná gamla manninum og miðað við þau 1860 stig sem hann hefur skorað að meðaltali á hverju tímabili á ferlinum, er hann rúmlega þremur og hálfu tímabili frá því að slá það.
 
Í bandarísku viðskiptalífi er talað um hina “gylltu fallhlíf” sem stjórnendur og mikilvægir starfsmenn fyrirtækja fá í ráðningarsamningum, sem tryggja þeim háar upphæði fari allt til fjandans. Mikilvægi Kobe Bryant fyrir Lakers liðið er ótvírætt. Stjórnendur Lakers gerðu því góð skil í samningaviðræðum við Dwight Howard í sumar. Kobe hefur verið hjá Lakers liðinu allan sinn feril. Hann er orðinn eitt af þessum kennileitum í Los Angeles borg, líkt og Magic Johnson, Jerry West og Jabbar. Hann selur miða alls staðar þar sem hann spilar, hann selur sjónvarpsrétti og auglýsingar. Hann er langvinsælasti NBA leikmaðurinn í Asíu – markaður sem NBA deildin hefur einblínt á undanfarin ár. Að sjá Kobe Bryant spila í öðru en Lakers búning yrði eins döpur sjón og Michael Jordan í Wizards treyju.
 
Það er útilokað að önnur lið hefðu getað boðið Kobe eitthvað í líkingu við það sem hann er nú að fá frá Lakers. Lakers þurftu ekki að bjóða svona mikið. Eflaust þakklætis- og virðingarvottur frá Buss fjölskyldunni til hans. Það þarf kraftaverk til að Lakers vinni annan titil á þessum tíma, en það er ekki þar með sagt að Kobe geti ekki einbeitt sér að því að skjóta eins og vitleysingur með það að leiðarljósi að ná stigameti Jabbar, svífandi út í sólsetrið í gylltu fallhlífinni sinni.
Fréttir
- Auglýsing -