spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaHilmar Smári til Eisbären Bremerhaven

Hilmar Smári til Eisbären Bremerhaven

Leikmaður Hauka og íslenska landsliðsins Hilmar Smári Henningsson hefur samið við Eisbären Bremerhaven í þýsku Pro A deildinni fyrir komandi tímabil. Staðfestir Hilmar þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.

Hilmar Smári átti frábært tímabil með Haukum síðasta vetur, í 27 leikjum skilaði hann 19 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik, en liðið endaði í 3. sæti Subway deildarinnar á sínu fyrsta ári eftir að hafa komið upp úr fyrstu deildinni.

Hilmar Smári er 22 ára gamall og að upplagi úr Haukum, en hann fór ungur út til ungmennaliðs Valencia á Spáni, ásamt því að hafa verið á mála hjá Þór Akureyri og Stjörnunni í efstu deild á Íslandi. Þá var hann á sínum tíma lykilmaður í öllum yngri landsliðum Íslands, en með A landsliðinu hefur hann leikið 9 leiki.

Eisbären Bremerhaven er staðsett í Bremerhaven í Þýskalandi og leika þeir heimaleiki sína í 6000 manna höll, Bremerhaven Stadthalle. Félagið er 22 ára gamalt og hefur lengst af leikið í efstu deild, Bundesliga, en féllu úr henni 2019. Á síðasta tímabili enduðu þeir í 8. sæti deildarinnar.

Fréttir
- Auglýsing -