spot_img
HomeFréttirHilmar semur við Keflavík "Hlakka mikið til að klæðast Keflavíkurbúningnum"

Hilmar semur við Keflavík “Hlakka mikið til að klæðast Keflavíkurbúningnum”

Keflavík hefur samið við Hilmar Pétursson fyrir næsta tímabil í Subway deild karla. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag. Hjá Keflavík hittir hann fyrir föður sinn, Pétur Ingvarsson þjálfara, og bróður sinn, Sigurð Pétursson, sem verið hafa hjá Keflavík á tímabilinu.

Hilmar er að upplagi úr Haukum, en lék fyrir Hamar, Breiðablik og Keflavík áður en hann hélt út til Munster í Pro A deildinni í Þýskalandi fyrir tveimur árum. Þar var hann lykilmaður í liði sem festi sig í sessi í deildinni og fór í úrslitakeppnina nú á þessu tímabili, en þeir voru slegnir út af Trier í átta liða úrslitum á dögunum. Með Munster skoraði hann 11 stig og gaf 3 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.

Hilmar kveðst mjög spenntur að koma aftur til Íslands og spila fyrir Keflavík samkvæmt færslu félagsins. “Ég hlakka mikið til að klæðast Keflavíkurbúningnum á nýjan leik. Ég hef bætt leik minn jafnt og þétt undanfarin ár svo vonandi get ég hjálpað Keflavíkurliðinu að gera góða hluti í framtíðinni. Ekki skemmir fyrir að spila aftur undir stjórn pabba og með bróður mínum sem er alltaf að verða betri og betri”.

Magnús Þorsteinsson, formaður Keflavíkur, var virkilega ánægður með að hafa náð að landa Hilmari samkvæmt færslu félagsins. “Það er ekkert launungamál að Hilmar mun koma til með að styrkja liðið mikið enda frábær leikmaður. Hann þekkir deildina vel og spilaði frábærlega á síðasta tímabili sínu hér á landi áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Það er markmið okkar að tefla fram frábæru liði á næsta ári og er Hilmar mikilvægur vagn í þá hraðlest sem ætlunin er að búa til”.

Fréttir
- Auglýsing -