spot_img
HomeFréttirHildur: Mun gera enn betur í sumar og koma sterkari til leiks

Hildur: Mun gera enn betur í sumar og koma sterkari til leiks

 
,,Vörnin var ekki að skila auðveldum stigum fyrir okkur í kvöld,“ svaraði Hildur Sigurðardóttir leikmaður KR spurð að því hver henni fyndist vera ástæðan fyrir því að KR væri komið í sumarfrí eftir að Íslandsmeistararnir féllu úr undanúrslitum með 3-1 tapi í seríunni gegn Keflavík.
,,Í seinasta leik vorum við ekki að spila sem lið en í kvöld held ég að við höfum verið að finna hvor aðra aðeins meira en Keflavík skorar 70 stig og við hefðum helst þurft að halda þeim undir 70 til að vinna svona leik,“ sagði Hildur en á kafla hélt KR gestum sínum stigalausum í rúmar sjö mínútur í öðrum leikhluta en misstu þær einfaldlega einbeitingu í sínum aðgerðum?
 
,,Það er eitthvað, ég bara veit það ekki en við eigum að vera með langbesta varnarliðið í deildinni og ég veit ekki af hverju við getum ekki barist heilan leik, klárað heilan leik og gert það sem við gerum vel allan tímann,“ sagði Hildur en gæti verið að raunir KR-inga hafi einfaldlega verið of miklar undanfarið til þess að eiga möguleika á því að komast áfram?
 
,,Það má alveg segja að þetta hafi verið of stór biti enda fór undirbúningurinn fyrir leiki að koma Melissu inn í kerfin og annað en Keflavík lendir í því sama, að vera með nýjan útlending. Liðið okkar lendir samt í því að vera að breytast í allan vetur svo við vorum alltaf að slípa okkur saman á nýjan leik og það hefði verið betra að vera með fastan hóp sem klárar heilt tímabil þannig að liðið geti farið að vinna saman,“ sagði Hildur en ætti KR ekki að hafa horn í síðu Keflvíkinga núna þegar liðið tapaði í bikarúrslitum- og undanúrslitum gegn Keflavík?
 
,,Jú ætli það ekki, maður er ekkert að fara í heimsókn í Keflavík núna held ég,“ sagði Hildur þó á léttum nótum. ,,Þetta er bara mjög leiðinlegt og auðvitað vill maður vera að spila ennþá, það er ekki einu sinni kominn apríl, sumarfrí þegar það er ennþá snjór úti,“ sagði Hildur en hvað ber sumarið í skauti sér fyrir Hildi?
 
,,Bara æfa og njóta lífsins, ég æfði vel í fyrrasumar og lenti svo í meiðslum svo síðasta sumar skilaði mér ekki því sem ég ætlaðist til þannig að ég mun bara gera ennþá betur í sumar og koma sterkari til leiks.“
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski
 
Fréttir
- Auglýsing -