,,Ég held að þessir oddaleikir séu fín auglýsing fyrir kvennakörfuna og nú erum við á heimavelli í oddaleik og reynslunni ríkari. Við vorum mjög nálægt þessu í fyrra gegn Haukum og ekki spurning að við ætlum að klára þetta á þriðjudag á okkar heimavelli,“ sagði Hildur Sigurðardóttir leikmaður KR eftir 81-75 tap gegn Hamri í fjórðu úrslitaviðureign liðanna í Iceland Express deild kvenna. Hildur byrjaði leikinn með látum og gerði 7 af 11 fyrstu stigum KR í byrjun leiks og lauk svo leik með 18 stig.
,,Við erum nokkrar hérna sem höfum spilað til úrslita síðustu tvö ár og öllum langar að vinna þennan titil svo það er sama pressa á báðum liðum. Hamri langar örugglega jafn mikið að vinna þennan titil eins og við, það langar öllum að vinna þetta,“ sagði Hildur spurð út í pressuna og hvernig hún væri en svo barst talið að varnarleiknum sem í leikjum 2 og 3 skópu sigrana hjá KR.
,,Í dag fengum við mun fleiri villur á okkur snemma í leiknum heldur en í leikjum 2 og 3 og þegar við fáum ekki að spila maður á mann vörn þá fer þetta svona. Við kannski förum að detta í einhverja svæðisvörn og góð lið spila bara ekkert svæðisvörn, við erum gott lið og viljum spila maður á mann vörn og erum góðar í því. Við bara fengum ekki að gera það í dag,“ sagði Hildur en er það eitthvað sérstakt sem KR-ingar þurfa að fínpússa fyrir leikinn á þriðjudag?
,,Við skoðum þennan leik, hvað við getum lagað og Hamar var t.d. að fá galopin færi eftir pressu hjá okkur og við fórum ekki nægilega vel út í leikmenn eins og Koren og fleiri. Þetta verður pottþétt lagað fyrir næsta leik og vonandi fáum við þá að spila maður á mann vörn óáreittar,“ sagði Hildur en 47 villur voru dæmdar í leiknum og leikmenn beggja liða í töluverðum villuvandræðum.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski



