spot_img
HomeFréttirHildur Björg með sigurstigin!

Hildur Björg með sigurstigin!

Nú líður að úslitastundum í bandaríska háskólaboltanum og vestanhafs eigum við Íslendingar fjölda fulltrúa sem eru að láta vel að sér kveða. Í nótt gerði Hildur Björg Kjartansdóttir t.d. sigurstig Rio Grande um leið og leikurinn rann út í sandinn. Hér að neðan förum við yfir stöðu mála hjá okkar fólki í Bandaríkjunum en í marsbyrjun eru flestir skólar á leið inn í úrslitakeppnina í sínum riðlum (e. conference).

Cansius College – Sara Rún Hinriksdóttir – Margrét Rósa Hálfdanardóttir – DIV I
Stöllurnar Sara og Margrét Rósa höfðu góðan sigur með Cansius í nótt gegn Fairfield á útivelli, 47-58. Sara Rún gerði 11 stig og tók 9 fráköst í leiknum. Margrét Rósa bætti við 6 stigum og 4 stoðsendingum. Cansius er á svipuðum slóðum og kvennalið Marist í MAAC riðlinum í 7. sæti með 8 sigra og 11 tapleiki. Canisius á einn leik eftir í riðlinum gegn sterku liði Quinnipiac sem er á toppi riðilsins og hefur unnið síðustu sex leiki sína í röð.
Sara Rún, tímabilið 2016-2017: Stigahæsti leikmaður liðsins með 15,3 stig á leik, frákastahæsti leikmaður 5,9 á leik, 29,9 mín á leik.
Margrét Rósa, tímabilið 2016-2107:  9,3 stig, 4,0 fráköst og 28,0 mín á leik.

University of Texas Rio Grande Valley – Hildur Björg Kjartansdóttir – DIV 1
Hildur Björg og félagar í Rio Grande höfðu nauman 58-57 sigur í nótt gegn Seattle U þar sem Hildur Björg hjó nærri tvennunni með 14 stig og 8 fráköst en hún var einnig með 1 varið skot, 1 stolinn bolta og 1 stoðsendingu á 33 mínútum. Hildur setti sigurkörfu leiksins um leið og leiktíminn rann út! Rio Grande á tvo leiki eftir í riðlinum, annað kvöld gegn Utah Valley og síðasti leikurinn er 4. mars gegn New Mexico State og að honum loknum tekur við úrslitakeppnin í WAC riðlinum. Rio Grande er í 4. sæti riðilsins með 7 sigra og 5 tapleiki en sigurinn gegn Seattle í nótt var sterkur þar sem Seattle er í 2. sæti riðlsins.
Hildur Björg, tímabilið 2016-2017: 7,6 stig, 7,4 fráköst, 1,8 stoðsendingar og 27,6 mínútur.

Gunnar Ingi Harðarson – Belmont Abbey – DIV II
Belmont Abbey á tvo leiki eftir í deildarkeppninni, í kvöld gegn Pfeiffer skólanum og næsta þriðjudag gegn King skólanum. Tveir sigrar í síðustu tveimur leikjum en í síðasta leik kom Gunnar lítið við sögu með aðeins fjórar mínútur og náði ekki að skora á þeim tíma. Gunnar Ingi hefur þó verið með 7,7 stig að meðaltali í leik í vetur og verið byrjunarliðsmaður í þremur leikjum. Gunnar og félagar leika í Conference Carolinas og eru um þessar mundir í 6. sæti riðilsins með 10 sigra og 9 tapleiki.
Gunnar Ingi, tímabilið 2016-2017: 7,7 stig, 1,6 fráköst og 1,0 stoðsending.

Gunnar Ólafsson – St. Francis – DIV 1
Það hefur verið á brattann að sækja hjá Gunnari og félögum í St. Francis Brooklyn þetta tímabilið en liðið hefur tapað fimmtán leikjum í röð! St. Francis á tvo leiki eftir í riðlinum en tapaði síðasta leik 73-55 gegn Wagner skólanum. Gunnar gerði 2 stig í leiknum á 21 mínútu og var með 5 fráköst. St. Francis er á botni NEC riðlsins með 2 sigra og 15 tapleiki en síðasti leikur liðsins í riðlinum er gegn Mount St. Mary´s annað kvöld.
Gunnar Ólafsson, tímabilið 2016-2017: 4,5 stig, 5,0 fráköst og 22,3 mínútur á leik.

Marist – Lovísa Björt Henningsdóttir – DIV 1
Marist mátti fella sig við skell í gær þegar liðið steinlá 70-36 gegn Quinnipiac. Fyrir leikinn í gær hafði Marist unnið tvo leiki í röð gegn Monmouth og Fairfield. Lovísa Björt var með 9 stig, 1 stolinn bolta og 4 fráköst í þessum skell gegn Quinnipiac en síðasti leikur liðsins í riðlinum er á sunnudag gegn Manhattan skólanum. Marist er í 6. sæti MAAC riðlsins með 10 sigra og 9 tapleiki en Manhattan skólinn í næstneðsta sæti. Úrslit riðilsins hefjast fimmtudaginn 2. mars næstkomandi og verður ljóst hver andstæðingur Marist verður strax eftir helgina.
Lovísa Björt, tímabilið 2016-2017: 8,6 stig, 5,0 fráköst.

Marist – Kristinn Pálsson – DIV 1
Eftir að hafa tapað níu leikjum í röð eru liðsmenn Marist komnir á sigurbraut með sigur í síðustu tveimur leikjum í MAAC riðlinum. Einn leikur er eftir í riðlakeppninni hjá Marist og er það leikur gegn Siena skólanum sunnudag en Siena er í 4. sæti MAAC riðilsins en Marist í ellefta og síðasta sæti riðlsins með 5 sigra og 14 tapleiki á tímabilinu. Kristinn lék ekki með í síðasta leik Marist vegna meiðsla.
Kristinn Pálsson, tímabilið 2016-2017: 4,5 stig, 2,7 fráköst

Niagara University – Dagný Lísa Davíðsdóttir – DIV 1
Hamarskonan Dagný Lísa og félagar í Niagara höfðu sigur í síðasta leik 71-63 gegn Saint Peter´s University. Dagný Lísa fékk tvær mínútur í leiknum en í vetur hefur hún verið að leika að jafnaði 11,3 mínútur í leik á þessu nýliðaári sínu við skólann. Niagara er í 9. sæti MAAC riðilsins með 5 sigra og 13 tapleiki í riðlinum en Niagara leikur í sama riðli og Marist og því eru þær Dagný Lísa og Lovísa Björt Henningsdóttir leikmaður Marist andstæðingar í þessum riðli. Niagara á tvo leiki eftir áður en kemur að úrslitakeppni MAAC riðlsins, í kvöld gegn Rider skólanum og á sunnudag gegn Monmouth University.
Dagný Lísa, tímabilið 2016-2017: 1,6 stig, 1,7 fráköst

Davidson – Jón Axel Guðmundsson – DIV 1
Davidson lá 76-84 í síðasta leik gegn Richmond þann 21. febrúar síðastliðinn en alls eru þrír leikir eftir hjá Davidson áður en kemur að úrslitakeppninn í Atlantic 10 Conference. Næsti leikur hjá Davidson er í kvöld en hann er á heimavelli gegn Dayton. Davidson er í 8. sæti Atlantic 10 riðilsins og á hörkuleik í vændum í kvöld þar sem Dayton er í 2. sæti riðilsins og hefur bara tapað tveimur leikjum til þessa á tímabilinu. Úrslitakeppni riðilsins fer fram í Pittsburgh dagana 8.-12. mars næstkomandi.
Eins og mörgum er kunnugt hefur Jón Axel komið sér fyrir í lykilhlutverki hjá Davidson sem byrjunarliðsmaður.
Jón Axel, tímabilið 2016-2017: 8,1 stig, 4,2 fráköst

Florida Tech – Guðlaug Björt Júlíusdóttir – DIV II
(Valur Orri Valsson – redshirt)

Guðlaug og liðsfélagar í Florida Tech eiga einn leik eftir áður en blásið verður til úrslitakeppninnar í Sunshine State Conference en leikurinn er gegn Palm Beach skólanum næsta laugardag. Florida Tech er í 6. sæti með 7 sigra og 10 tapleiki en Palm Beach í 9. sæti. Guðlaug Björt gerði 7 stig og gaf 5 stoðsendingar síðastliðinn miðvikudag þegar Florida Tech hafði sterkan sigur á Tampa.
Guðlaug fór rólega af stað með Florida Tech þetta tímabilið sem nýliði og náði ekki 10 mínútum á leik fyrstu þrjá leiki sína en vann fljótt á og hefur verið í byrjunarliði skólans í síðustu 11 leikjum í röð!
Guðlaug Björt, tímabilið 2016-2017: 4,4 stig, 2,5 fráköst og 2,2 stoðsendingar.
*Valur Orri Valsson er einnig við Florida Tech skólann en er að klára að sitja af sér þetta fyrsta leikár sem redshirt. Hann er væntanlegur í baráttuna með skólanum á næstu leiktíð.

Furman – Kristófer Acox – DIV I
Furman lýkur deildarkeppninni í SoCon-riðlinum núna á laugardag þegar liðið tekur á móti Wofford í Greenville, heimavelli Furman. Sem stendur er Furman í 2. sæti riðilsins með 13-4 stöðu en ETSU skólinn er á toppnum og hefur unnið fimm leiki í röð svo á ýmsu þarf að ganga svo Furman komist á toppinn en sigur á laugardag er skilyrði svo það geti orðið. Þann 3. mars hefst úrslitakeppnin í SoCon-riðlinum og mun hún fara fram í Asheville í Norður-Karólínu. Það ræðst því um helgina hvaða skóli verður andstæðingur Furman í fyrstu umferðinni en um útsláttarfyrirkomulag er að ræða.
Kristófer Acox, tímabilið 2016-2017: 12,6 stig (18,6 stig í SoCon-riðlinum), 7,8 fráköst, 61,2% skotnýting í teig.

Barry-Elvar Már Friðriksson – DIV II
Barry háskólinn á einn leik eftir í riðlakeppni Sunshine State Conference áður en blásið verður til úrslitakeppninnar í riðlinum. Eins og áður hefur komið fram hafa Elvar Már Friðriksson og Barry-menn þegar tryggt sér sigur í deildarkeppni riðilsins. Sjálf úrslitakeppni Sunshine State Conference hefst svo 1. mars næstkomandi og í 8-liða úrslitum mun Barry fá heimaleik. Undanúrslitin munu fara fram á heimavelli Embry-Riddle skólans sem og úrslitaleikurinn sjálfur en Embry-Riddle Skólinn er á Daytona-Beach.
Elvar Már Friðriksson, tímabilið 2016-2017: 15,7 stig, 7,8 stoðsendingar, 3,9 fráköst, 1,4 stolnir boltar, 32,6 mínútur í leik.

 

Fréttir
- Auglýsing -