Fjölnir lagði Breiðablik í kvöld í Dalhúsum í Subway deild kvenna, 91-81. Eftir leikinn er Fjölnir í efsta sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að Breiðablik er í sjöunda sætinu með 2 stig.
Fyrir leik
Í tvígang áður hafa liðin mæst á tímabilinu og hefur Fjölnir haft sigur í bæði skiptin. Fyrri leikinn vann Fjölnir með 4 stigum, 75-71, þann 6. október, en þann seinni í Smáranum með 39 stigum, 60-99, þann 21. nóvember.
Munar um minna
Bæði lið vantaði mikilvæga pósta í leik kvöldsins. Í lið Breiðabliks vantaði Iva Georgieva og hjá Fjölni vantaði Iva Bosnjak og Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur, sem báðar voru fjarri góðu gamni.
Gangur leiks
Heimakonur í Fjölni byrjuði leikinn af miklum krafti. Ná snemma að byggja sér upp þægilega forystu, en eftir fyrsta leikhluta eru þær 11 stigum yfir, 33-22, þar sem Aliyah Mazyck var komin með 20 stig. Í byrjun annars leikhlutans gera gestirnir heiðarlega tilraun til þess að jafna leikinn, en missa heimakonur svo aftur frá sér og er munurinn 9 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 46-37.
Eftir 20 stiga fyrsta leikhluta hægðist verulega á stigaskorun Aliyah Mazyck í öðrum leikhlutanum, en hún var samt atkvæðamest Fjölniskvenna í fyrri hálfleiknum með 22 stig og 8 fráköst. Fyrir Breiðablik var Isabella Ósk Sigurðardóttir atkvæðamest í fyrri hálfleiknum með 8 stig og 4 fráköst.
Áfram nær Breiðablik að hanga í Fjölni í upphafi seinni hálfleiksins. Munurinn 8 til 14 stig lengst af í þriðja leikhlutanum, en að fjórðungnum loknum er forysta heimakvenna, líkt og í hálfleik, 9 stig, 68-59. Í seinni hluti fjórða leikhlutans ná gestirnir úr Breiðablik að vinna niður muninn og eru eðins einu stigi undir þegar rúm mínúta er eftir, 82-81. Með ótrúlegum lokakafla nær Fjölnir þó sigla aftur vel framúr og vinna að lokum með 10 stigum, 91-81.
Tölfræðin lýgur ekki
Heimakonur í Fjölni unnu frákastabaráttu leiksins nokkuð örugglega með 61 fráköstum á móti 52 hjá Breiðablik.
Atkvæðamestar
Aliyah Mazyck var best í liði Fjölnis í kvöld með 40 stig, 14 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þá bætti Sanja Orozovic við 29 stigum og 6 fráköstum.
Fyrir Breiðablik var Isabella Ósk Sigurðardóttir framlagshæst með 12 stig, 11 fráköst, 3 stolna bolta og Michaela Lynn Kelly var með 21 stig og 12 fráköst.
Hvað svo?
Samkvæmt skipulagi eiga bæði lið leik næst þann 19. janúar. Breiðablik fær nýliða Grindavíkur í heimsókn í Smárann og Fjölnir mætir Njarðvík í Ljónagryfjunni.
Myndasafn (Bára Dröfn)