Samkvæmt skagfirsku fréttasíðunni Feykir.is mun Anthonio Hester leika áfram með Tindastól á næsta tímabili. Hester kom til félagsins um mitt síðasta tímabil eftir að Sauðkrækingar létu Mamadou Samb og Pape Seck fara frá liðinu. Hester lék mjög vel með Tindastól sem féll þó úr leik í 8. liða úrslitum gegn Keflavík.
Hester var með 23,4 stig og 10,8 fráköst að meðaltali í leik í 20 leikjum fyrir Sauðárkrók. Samkvæmt Feykir.is mun Hester hafa verið eftirsóttur af liðum á Íslandi og erlendis og því samningaviðræður við kauða gengið hægt. Hann hafi verið fyrsti kostur þjálfarans og því mikil ánægja með að hann hafi nú samið við félagið.
„Þegar upp var staðið þá vildi Hester koma aftur til okkar því að í Skagafirði líður honum svo rosalega vel. Stjórnin er líka afskaplega ánægð með það að Hester sé búinn á skrifa undir við félagið,“ sagði Stefán við Feyki.