spot_img
HomeFréttirHesseldal með enn einn stórleikinn fyrir Njarðvík

Hesseldal með enn einn stórleikinn fyrir Njarðvík

Njarðvík lagði Val í Subway-deild kvenna í kvöld en liðin mættust í Ljónagryfjunni. Upprunalega átti leikurinn að hefjast 19:15 en var færður til 20:15 sökum veðurofsans í dag. Lokatölur í Ljónagryfjunni í kvöld voru 79-67.

Emilie Hesseldal átti enn einn stórleikinn fyrir Njarðvíkinga með 28 stig, 15 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Hjá Val var Téa Adams með 29 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.

Njarðvikingar byrjuðu betur og komust í 15-9 en Valskonur minnkuðu muninn í 24-22 fyrir lok fyrsta leikhluta þar sem Dagbjört Dögg var með flautukörfu í teignum fyrir Val. Selena með 7 stig hjá Njarðvík og Pannel sömuleiðis fyrir Valskonur.

Valskonur komust yfir í öðrum leikhluta og leiddu 29-31 þegar hann var hálfnaður. Öflugur varnarleikur gestanna hélt Njarðvík í aðeins 5 stigum á fyrstu 5 mínútum leikhlutans. Téa Adams lék vel í öðrum leikhluta fyrir Val og leiddu gestirnir 39-40. Adams með 16 stig í hálfleik en Lott 14 hjá Njarðvík.

Áfram var jafnræði með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Njarðvíkingar voru þó ívið betri í þriðja leikhluta, unnu leikhlutann 20-15 og leiddu því 59-50 fyrir fjórða leikhluta.

Emilie Hesseldal setti stóran þrist þegar rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka og kom Njarðvík í 68-60. Snöggtum síðar bætti Krista Gló Magnúsdóttir við öðrum þrist og kom ljónynjum í 71-60 og fyrir hnífjafnan leik var þetta þungt fyrir Valskonur. Njarðvík lét ekki ná sér eftir þetta og kláraði leikinn 79-67.

Þá er ljóst hvaða lið skipa A og B hluta í deildarkeppninni sem nú tekur við en í A-hluta eru Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Stjarnan og Haukar en í B-hluta eru Þór Akureyri, Valur, Fjölnir og Snæfell.

Tölfræði leiksins

Gangur leiksins

15-9, 24-22

29-31, 39-40

47-48, 59-55

65-60, 79-67.

Fréttir
- Auglýsing -