spot_img
HomeFréttirHéraðsmenn fyrstir að leggja Hamar

Héraðsmenn fyrstir að leggja Hamar

Höttur tyllti sér í efsta sæti 1. deildar í kvöld eftir toppslag á Egilsstöðum, þar sem Hamar frá Hveragerði var í heimsókn. Hamar hafði ekki tapað leik fram að þessu en laut í gras fyrir baráttuglöðum Héraðsmðnnum.
 
 
 
Það var Hamar sem byrjaði leikinn betur og leiddi eftir fjörugan fyrsta leikhluta 20-28. Þorsteinn Gunnlaugsson fór fyrir Hamri í byrjun leiks og Hvergerðingar hittu vel úr teignum. Viðar, þjálfari Hattar, skipti í svæðisvörn í öðrum leikhluta og gekk heimamönnum betur að eiga við Hvergerðinga þannig. Höttur átti góðan sprett í lok fyrri hálfleiks og minnkaði muninn í þrjú stig, 39-42. Leikurinn var fjörugur og bæði lið höfðu barist af krafti en í fjórða leikhluta rann móðurinn af Hvergerðingum, Höttur náði forystunni í 67-65 og lék af skynsemi til loka leiks og vann að lokum góðan sigur á sterku Hamarsliði, 76-70, eftir að hafa haldið Hamri í níu stigum í fjórða leikhluta.
 
 
Í liði Hamars var Þorsteinn Gunnlaugsson bestur, skoraði 19 stig og tók 7 fráköst. Örn Sigurðarson og Julian Nelson skoruðu 16 og 17 stig.
 
Hjá Hetti sýndi Hreinn Gunnar Birgisson mikla baráttu, skoraði 13 stig, varði 4 skot og tók 11 fráköst. Tobin Carberry var með 24 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar og Ragnar Gerald Albertsson spilaði sinn besta leik fyrir Hött í vetur og skoraði 17 stig.
 
 
Ari Gunnarsson, þjálfari Hamars, var ósáttur við dómara leiksins og var vísað úr húsi á Egilsstöðum, sem kom þó ekki að sök þar sem leik var lokið og hann á heimleið hvort eð var.
 
Eftir leikinn situr Höttur í efsta sæti deildarinnar með fjóra sigra og eitt tap en Hamar hefur unnið þrjá leiki og tapað einum. Það er athyglisvert hversu Hattarliðið mætir vel stemmt til leiks á íslandsmótinu þrátt fyrir að hafa misst lykilleikmenn frá síðasta tímabili en liðið barðist af miklum krafti í kvöld.
 
 
Umfj/Magnús Þór Ásmundsson
Mynd/ Úr safni – Spilandi þjálfari Hattar, Viðar Örn Hafsteinsson, setti 8 stig á Hamar í gær. 
  
Fréttir
- Auglýsing -