Fá félög eða nokkur í heiminum geta státað sig af viðlíka stærðargráðu í körfubolta, fótbolta og handbolta eins og Barcelona. Félagið á lið í allra fremstu röð í þessum þremur boltagreinum og þar á bæ tíðkast að menn reyni nú aðeins fyrir sér í annarri íþrótt en þeirri sem veitir þeim myndarlega bankainnistæður.
Þannig var á dögunum að knattspyrnumaðurinn frægi Thierry Henry kom í heimsókn á æfingasvæði körfuboltaliðs Barcelona og skoraði þar á fyrirliða bikarmeistaranna Roger Grimau. Óhætt er að segja að Henry kunni sitthvað fyrir sér í körfubolta enda þurfti Grimau aðeins að bretta upp ermar. Þessi viðureign kappanna var liður í kynningu á bikarúrslitaleik Barcelona og Real Madrid sem fram fór um síðustu helgi þar sem Börsungar unnu öruggan 80-61 sigur og Grimau gerði 6 stig.



